Áhrif af lækkun vörugjalda af sykri og sætum matvörum eru minni en ætla mætti, að mati ASÍ. Sömu sögu má segja af áhrifum afnáms vörugjalda í verðlagi á bílavarahlutum og byggingarvörum. Þá hafa bækur hækkað talsvert umfram virðisaukaskattshækkunina á þeim.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,67 prósent í febrúar og ársverðbólga er óbreytt 0,8 prósent, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Húsnæðisverð er áfram leiðandi í hækkun verðlags, en sé húsnæði undanskilið er lækkun vísitölu neysluverðs 0,9 prósent undanfarið ár.
Mestar breytingar má rekja til þess að útsölum er lokið svo verð hækkar á ný. Eldsneytisverð hefur einnig hækkað milli mánaða. Á móti hafa flugfargjöld og matur og drykkur lækkað milli mánaða. Helsta lækkunin á mat- og drykkjarvörum er vegna lækkunar á kjöti og ávöxtum.
Breytingar á neysluskatti tóku gildi um áramótin hefur matar- og drykkjarliður vísitölunnar hækkað um 1,9 prósent. ASÍ segir skýrar vísbendingar um að lækkun sykurskattsins hefur ekki skilað sér að fullu.
Sem dæmi hafa kökur og sætabrauð hækkað um 3,9 prósent í verði frá áramótum, sem er umfram hækkunina sem varð á virðisaukaskatti og engin sjáanleg áhrif eru af lækkun vörugjalda. Þá hafa sykur, súkkulaði og sætindi samtals lækkað um 4,8 prósent frá áramótum sem er minna en tilefni var til, að mati sambandsins.