„Það er áhyggjuefni ef lyfjameðferð sjúklinga með alvarlega sjúkdóma verður ekki sambærileg því sem tíðkast í löndum sem við kjósum að bera okkur saman við,“ skrifa tveir læknar sem sitja í lyfjanefnd Landspítalans. Ef stjórnvöld og heilbrigðisyfirvöld auki ekki fjárveitingu til S-merktra lyfja í fjárlagafrumvarpi næsta árs verði það mögulega raunin að lyfjameðferðir á Íslandi verði ekki sambærilegar við meðferðir á Norðurlöndunum.
Þetta kemur fram í grein sem Gerður Gröndal lyf- og gigtarlæknir og Gunnar Bjarni Ragnarsson yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítalanum skrifa í nýjasta Læknablað. Gerður og Gunnar segja að fjárveitingin til S-merktra lyfja lækki um 210 milljónir króna milli ára vegna spár um gengisforsendur. Á móti sé raunhækkun framlags um 195 milljónir til að mæta kostnaðarhækkun vegna aukins magns.
Vegna þess hversu miklar framfarir hafa orðið í lyfjameðferð margra sjúkdóma eykst notkun vegna þess að sjúklingahópar stækka. Til dæmis hefur fjöldi nýrra lyfja aukist og árangur lyfjameðferðar krabbameinssjúklinga batnað og margir geta vænst lengra og betra lífs. „Ljóst er að kostnaður mun aukast vegna þessarar lyfjaþróunar. Ef ekki verður hægt að taka upp ný krabbameinslyf í takt við þróunina, er ljóst að þjónusta við krabbameinssjúklinga mun versna og lifun þeirra verða skemmri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.“
Gerður og Gunnar segja að vegna takmarkaðra fjárheimilda á Íslandi hafi ekki verið unnt að innleiða mikilvæg lyf sem séu nú þegar komin í notkun á Norðurlöndunum. „Árið 2014 voru einungis tekin upp fáein ný S-merkt lyf og á þessu ári er sömu sögu að segja, einungis örfá ný lyf hafa verið tekin í notkun, það er yfirleitt þau lyf sem auka ekki kostnað og koma í staðinn fyrir önnur sambærileg lyf. Vegna fjárskorts eru fjöldatakmarkanir á einni ákveðinni viðurkenndri lyfjameðferð.“ Þá bíði mörg ný lyf innleiðingar.
„Það er áhyggjuefni ef lyfjameðferð sjúklinga með alvarlega sjúkdóma verður ekki sambærileg því sem tíðkast í löndum sem við kjósum að bera okkur saman við. Miðað við ofangreint frumvarp til fjárlaga er ljóst að svigrúm til upptöku nýrra lyfja verður áfram mjög takmarkað og hætta á að greiðsluþátttöku í gagnlegri lyfjameðferð sem eykur kostnað, verði hafnað,“ skrifa Gunnar og Gerður og segjast vonast til þess að athugasemdir þeirra verði teknar til greina og fjárveiting aukin fyrir næsta ár. Annars sé ekki ljóst hvort hægt sé að halda lyfjameðferð sambærileggri við það sem tíðkist á Norðurlöndunum.