Læknaráð Landspítalans segir að fullyrðingar stjórnvalda um aukin framlög til spítalans standist ekki skoðun þegar búið sé að taka tillit til vísitölubreytinga, og ekkert tillit sé tekið til vaxandi eftirspurnar eftir þjónustu á spítalanum. Þetta kemur fram í nýrri ályktun frá læknaráðinu.
Læknar lýsa því „enn og aftur yfir vonbrigðum með skilningsleyfi fjárveitingarvaldsins á starfsemi Landspítalans.“ Hlutur spítalans í fjárlagafrumvarpinu dugi ekki til að halda í horfinu miðað við verðlags- og launaþróun og vanrækslu síðustu ára.
Því er skorað á Alþingi að endurskoða fjárlagafrumvarpið „með það að leiðarljósi að tryggja Landspítalanum nauðsynlega fjárveitingu til að geta hafið uppbyggingarskeið sem stuðlar að framþróun starfseminnar. Læknaráð leggur áherslu á að batnandi staða ríkissjóðs nýtist til uppbyggingar á Landspítala eins og þjóðin hefur einhuga lýst yfir að vilji hennar standi til.“
Þá segir læknaráð að það þurfi að endurreisa þá grunnstoð íslensks heilbrigðiskerfis sem spítalinn sé. „Það verður ekki gert nema með verulega auknu fjármagni til reksturs spítalans og fyrir nýjum framkvæmdum. Nú er komið að skuldadögum. Ekki er nægilegt að halda í horfinu heldur þarf verulega innspýtingu af fjármagni til að snúa við óheillaþróun undanfarinna ára.“