Þóra Elísabet Kristjánsdóttir, sem starfar sem námslæknir hjá Landspítalanum, birti launaseðil sinn vegna útgreiðslu launa 1. september síðastliðinn frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, á Facebook í dag. Samkvæmt launaseðlinum var Þóra Elísabet með rétt tæpar 437 þúsund krónur í heildarlaun fyrir 100 prósent dagvinnu, þar af voru föst mánaðarlaun tæplega 397 þúsund krónur, og föst yfirvinna fyrir rétt röskar 40 þúsund krónur. Eftir skatta og opinber gjöld fékk Þóra Elísabet útborgað 276.985 krónur.
Læknafélag Íslands hefur ekki viljað opinbera launakröfur sínar í kjaraviðræðum þeirra við ríkið. Næsti samningafundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður á miðvikudaginn.
Í áðurnefndri stöðuuppfærslu á Facebook skrifar Þóra Elísabet: "Auglýst er eftir starfskrafti sem hefur að lámarki klárað 6 ára háskólanám, rumpað af svo til einu kandídatsári og ætti helst að vera komin vel áleiðis í sérnámi. Starfið er fjölbreytt og krefjandi, þú munt að jafnaði hitta 12-16 sjúklinga á dag og tala við jafnmarga símleiðis; sjúkdómsgreina, meðhöndla og vonandi fylgja eftir. Laun samkv.kjarasamningum. Umsóknir berist hið snarasta því mönnun er með lakara móti. Hver er til?"
Kjarninn náði ekki tali af Þóru Elísabetu við vinnslu þessarar fréttar.