„Félagi minn, sem er lamaður fyrir neðan háls, bað mig fyrir um ári síðan að fljúga með hann. Ég sagði fyrst nei við hann, en hann tók það ekkert í mál. Á endanum samþykkti ég því að gera þetta. Við settum í kjölfarið af stað söfnun fyrir að búa til stól fyrir hann svo að hann gæti flogið.“ Þetta segir Gísli Steinar Jóhannesson hjá True Adventure, fyrirtæki sem flýgur með farþega á svifvængjum (e. paragliding).
Gísli og félagar flugu með Brand Bjarnason, sem er lamaður fyrir neðan háls, í nýjum flugstól sem þeir hafa búið í lok síðustu viku.
Össur gaf vinnu, hönnun og hluta af efninu
Þótt Gísli hefði góða hugmynd um hvernig hann vildi að útbúnaðurinn myndi líta út þá vildi hann fá fleiri að verkinu. „Ég setti mig fyrst í samband við Össur en það gekk illa að fá svör. Ég var því búinn að tala við aðra um að koma að þessu. Skömmu síðar var ég úti á landi að gera mig tilbúinn með að fljúga með farþega þegar síminn hringdi. Þá var það maður frá Össuri, Magnús Jónsson, sem hafði séð umfjöllun um verkefnið í sjónvarpinu, en hafði aldrei fengið skilaboðin sem við höfðum sent fyrirtækinu og vildi ræða við mig um aðkomu. Ég hafði ekki tíma til að tala við hann, skellti í raun nánast á hann, og bað manninn um að senda mér tölvupóst. Í kjölfarið hófust samskipti og við komumst í kynni við manninn hjá Össuri sem varð aðalhönnuðurinn að stólnum, Hafsteinn Jónasson.“
Boltinn fór að rúlla hratt eftir þetta og Össur ákvað að gefa alla vinnu, hönnun og hluta af efninu sem fór í stólinn. Hann var síðan klár í september í fyrra, en þá voru aðstæður til að fljúga á Íslandi ekki boðlegar. „Það var skítaveður,“ segir Gísli. Því var ákveðið að bíða fram á þetta sumar til að fljúga með Brand, vin sinn.
„Við höfðum ákveðið að Hafsteinn, sem hannaði stólinn, myndi fljúga fyrstu ferðina í honum og fórum í þá ferð fyrir nokkrum vikum. Ég prófaði síðan að fljúga einn með hann og það fór allt eftir plani. Þannig að síðasta föstudag, fyrir viku síðan, flaug Brandur með mér.“
Arnar Helgi Lárusson, formaður SEM samtakanna og er lamaður fyrir neðan mitti, flaug einnig með öðrum flugmanni, Samúel Alexanderssyni, á sama tíma.
Hóparnir frá True Adventure og Össuri sem stóðu að gerð stólsins fyrir fyrsta flugið.
Vilja gefa tekningarnar, en geta það ekki
Tilgangur verkefnisins var ekki einungis sá að fljúga með Brand. Gísli og félagar hans vildu líka gefa hönnunina. Gera hana að aðgengilega hverjum sem er (e. open source). Það er hins vegar ekki jafn einfalt mál að gefa hönnun sem á að hjálpa öðrum og það hljómar. „Hafsteinn hringdi í mig í síðustu viku, þegar við vorum að fara að fljúga, og sagði að Össur gæti ekki gefið teikningarnar. Hann var mjög leiður yfir því en ástæðan er sú að það myndi skapa áhættu á málsóknum í Bandaríkjunum. Það er of dýrt fyrir þá að tryggja sig gagnvart þeim. Þeir eru ekki hræddir um að tapa málsóknum, heldur er svo dýrt að verja sig. Áhættuþættirnir eru þeir að það er einkaleyfaiðnaður í Bandaríkjunum. Það eru fyrirtæki sem gera bara út á að safna einkaleyfum og fara síðan í mál við fyrirtæki sem finna upp það sem þau eiga einkaleyfi að. Síðan er það hitt að ef einhver hlýtur skaða af vegna hönnunar sem verið er að nota þá er líka hætta á málsókn. Við skiljum þessa afstöðu Össurar auðvitað mjög vel.“
Það er því verið að reyna að finna leiðir til að gefa hönnunina og Gísli er bjartsýnn á að það takist.
Brandur Bjarnason í fyrsta fluginu sínu.
Einstakur stóll
Gísli segir að verkefnið hafi undið mjög mikið upp á sig. „Upphaflega ætluðum við bara að fljúga með Brand. Síðan sogaðist hæfileikafólk að þessu, sérstaklega innan Össurar. Þetta var bæði tæknilega spennandi og samfélagslega gefandi verkefni. Við vildum því koma stólnum víðar og þess vegna var ákveðið að reyna að gefa teikningarnar. Það hafa verið búnir til stólar víða erlendis áður, en engin sem ég vildi nota. Þessi stóll er því einstakur."
Það er töluvert fyrirtæki að fljúga með hreyfihamlað fólk og til að fyllsta öryggis sé gætt þá þurfa að vera nokkrir aðstoðarmenn. Gísli og félagar hans hjá True Adventures ætla sér að fljúga með nokkra sem óskað hafa þess til viðbótar og leita síðan leiða til að bjóða upp á leiðir fyrir fólk sem vill gera það, meðal annars í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands. Hægt er að nálgast allar upplýsingar um flugstólinn á heimasíðu True Adventure.
Tengill á stuttmynd um verkefnið í keppni þar sem hægt er að kjósa hana.