Lánastofnanir munu fá svigrúm til þess að „horfa til fleiri þátta“ en niðurstöðu greiðslumats þegar þeir veita fasteignalán til fólks sem kaupir eign í fyrsta sinn. Setja á sérlög um fasteignalán þar sem þetta svigrúm verður heimilað, en þetta er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum, sem var kynnt í gær.
Samkvæmt lögum um neytendalán er skylt að meta lánshæfi og greiðslu lántakenda ef fjárhæð láns hjá einstaklingi er tvær milljónir og fjórar milljónir hjá sambúðarfólki og hjónum. „Óheimilt er að veita lántaka lán ef mat á lánshæfi eða greiðslumat leiðir í ljós ða hann hafi augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum með lánið,“ segir í lögum um neytendalán frá árinu 2013. Þó má víkja frá þessu ef virði veða eða annarra trygginga er meira en heildarfjárhæð láns.
Þessu er ætlað hjálpa sérstaklega ungu fólki að kaupa fyrstu eign.
Þá er í tillögum ríkisstjórnarinnar talað um að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð. Þetta úrræði er þegar í boði, og var hluti af leiðréttingarpakka ríkisstjórnarinnar. Hægt er að ráðstafa séreignasparnaði sínum inn á húsnæðislán fram til loka júní 2017. Ef um er að ræða sparnað til að kaupa húsnæði, eins og rætt er um í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, má safna fram til 30. júní 2019. Hámarksfjárhæð sem má ráðstafa inn á lánin eru 500 þúsund krónur á ári, samtals 1.500 þúsund á þremur árum, hjá einstaklingum. Upphæðin er 750 þúsund krónur á hjón eða sambúðarfólk sem er samskattað.