„Það er mat Embættis landlæknis að ástandið í heilbrigðiskerfinu sé komið út fyrir þau mörk að hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga. Verkfallsaðgerðum verður að ljúka hið fyrsta og undanþágur verður að veita án tafar þannig að öryggi viðkvæmra sjúklingahópa sé ekki stefnt í hættu.“ Þetta er á meðal þess sem má lesa í minnisblaði um áhrif verkfalls Bandalags Háskólamanna (BHM) sem Landlæknir birti á vefsíðu sinni síðdegis.
Embættið óskaði eftir upplýsingum um áhrif verkfalls BHM á heilbrigðisþjónustu hjá helstu heilbrigðisstofnunum landsins á tímabilinu 7. apríl til 4. maí síðastliðinn. Í minnisblaðinu segir: „Í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa borist Embætti landlæknis um áhrif verkfallsins á ofangreindar stofnanir fara áhrif þess vaxandi. Þau eru langmest á Landspítalanum (LSH) vegna umfangs og eðlis starfseminnar og þar eru fleiri starfsstéttir í verkfalli en á öðrum stofnunum.“
Samkvæmt minnisblaðinu hefur 354 skurðaðgerðum verið frestað frá upphafi verkfalls, 50 prósentum myndgreininga eða yfir 5.400 talsins, 60 prósent blóðrannsókna og rannsóknum á vefjasýnum. Þá hefur að minnsta kosti ríflega 1.500 dag- og göngudeildarkomum verið frestað. „Þessu til viðbótar koma upplýsingar frá LSH og Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK) um að undanþágubeiðnum sé synjað, sem setur vissa hópa sjúklinga í beina hættu. Er þar fyrst og fremst um að ræða krabbameinssjúklinga og aðra sjúklinga sem þurfa á meðferð að halda sem verður að fylgja vel eftir með blóðrannsóknum og myndgreiningu.“
Auk þess að óska þess að undanþágur verði veittar án tafar þannig að öryggi viðkvæmra sjúklingahópa sé ekki stefnt í hættu, segir í minnisblaðinu: „Embættinu er þó vel ljóst að aðgerðir sem binda endi á verkfall án þess að samningar náist leysa ekki vanda heilbrigðiskerfisins þegar til lengri tíma er litið. Ef til þess kæmi þurfa stjórnvöld að gefa afdráttarlausa yfirlýsingu um að samningaviðræðum verði haldið áfram í þeim tilgangi að skapa viðvarandi vinnufrið innan heilbrigðiskerfisins. Því lengur sem verkfall stendur eykst hinn uppsafnaði vandi sem er hættulegur öryggi sjúklinga.“