ÁTVR segir að verslunin hafi upplýst embætti Landlæknis Íslands m nikótíninnihald og innihald krabbameinsvaldandi efna í íslenska neftóbakinu í mars árið 2013, eða um leið og niðurstöður mælinga lágu fyrir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÁTVR sem send var fjölmiðlum í dag vegna umfjöllunar DV um íslenska neftóbakið, eða „ruddann“ svokallaða.
Í umfjöllun DV er fullyrt að ÁTVR hafi ekki upplýst Landlækni um efnagreiningu neftóbaksins, sem áfengis- og tóbaksverslunin segir ekki standast skoðun.
Þá kemur fram í fréttatilkynningunni að ÁTVR hafi boðið Landlækni að sjá um og birta skrá yfir innihaldsefni tóbaksins, samanber ákvæði reglugerðar um mynd- og textaviðvaranir á tóbaki og mælingar á hámarki skaðlegra tóbaksefna. Landlæknir hafi, af einhverjum ástæðum, ekki þegið boð ÁTVR í þessum efnum.
Þá kemur fram gagnrýni á umfjöllun DV í fréttatilkynningu ÁTVR þar sem borin eru saman hlutföll nikótíns í íslenska neftóbakinu við nikótínhlutfall í sænska General munntóbakinu. Í DV er fullyrt að í íslenska neftóbakinu sé 115 prósent meira níkótín en í því sænska, en ÁTVR segir að í umfjöllun DV sé ekki verið að bera saman sambærilega hluti.
ÁTVR segir að þegar vörurnar séu bornar saman sé sambærilegt nikótín 2,8 prósent í íslenska neftóbakinu og 1,67 prósent í því snska. Þá hafi ÁTVR vakið athygli á skaðsemi neftóbaks og hvatt til minni notkunar á því í samræmi við markmið laga og stefnu fyrirtækisins um samfélagslega ábyrgð.