Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir það hagkvæmt fyrir bankann að byggja nýjar höfuðstöðvar við hlið Hörpu við Austurhöfn og hafnar því að byggingin sé bruðl. Þetta hefur fréttastofa RÚV eftir Steinþóri.
„Við viljum staðsetja bankann þar sem verslun og viðskipti eiga sér stað fyrst og fremst í Reykjavík, á svæðinu frá miðbæ að Kirkjusandi og þar í kring. Við höfum verið að skoða kostina og niðurstaða liggur fyrir. Við fengum þessa lóð við Austurhöfn á góðu verði. Búið er að taka grunninn og jarðvinnu er að mestu lokið. Byggingagjöld eru innifalin. Við skoðuðum aðra kosti og niðurstaðan af þeirri skoðun er að þetta væri hagkvæmara. Þar kemur til lóðarverð. Það er ekki svo mikill munur á lóðarverði í Reykjavík, hvar maður setur sig niður. En kannski er aðalatriðið það að með því byggja á þessum stað, þá getur bankinn sparað í byggingakostnað í bílastæðum,“ er haft eftir Steinþóri.
Hann segir einnig að aðrir staðir hafi verið teknir til skoðunar, meðal annars í Borgartúni og nágrenni. Bygging við Hörpu hafi reynst ódýrari. „Síðan hafa okkur verið boðnir aðrir kostir, en við höfum verið að byggja á tölum frá verkfræðistofu utan úr bæ hvað það kostar að byggja. Við viljum halda okkur við raunhæfar tölur. En þetta var bara mjög hagkvæmt já.“
Staðsetningin harðlega gagnrýnd
Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar, sagði í fréttum RÚV um helgina að illa væri farið með peninga skattgreiðenda með því að byggja höfuðstöðvar Landsbankans á dýrasta stað á landinu. Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, talaði á svipuðum nótum um helgina og sagði nýjar höfuðstöðvar bankans móðgun. Landsbankinn er að 97,9 prósenta hlut í eigu Ríkissjóðs Íslands.
Nýbyggingin mun hýsa alla miðlæga starfsemi bankans og kostnaður við byggingu hússins með lóðarkaupum á að kosta átta milljarða króna. Nýbyggingin verður 14.500 fermetrar að stærð auk þess sem það verður um tvö þúsund fermetra kjallari fyrir tæknirými og fleira. Þá verður bílakjallari undir húsinu sem nýtist öllu svæðinu við Austurhöfn.
Í tilkynningu frá bankanum á fimmtudag í síðustu viku sagði: „Landsbankinn hefur með aðstoð sérfræðinga skoðað margar lóðir á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum og reyndist lóðin í Austurhöfn besti og hagkvæmasti kosturinn að mati bankans. Stærð lóðarinnar er hentug miðað við þarfir bankans og verð hennar í útboði var hagstætt, meðal annars þar sem jarðvinnu er að mestu lokið og að gatnagerðagjöld voru innifalin. Að auki má nefna góðar tengingar við almenningssamgöngur og möguleika á samnýtingu bílastæða á svæðinu sem sparar umtalsverðar fjárhæðir í byggingarkostnaði. Með því að byggja á þessum stað verður Landsbankinn áfram með starfsemi í miðborg Reykjavíkur og styður við öfluga og fjölbreytta atvinnustarfsemi í miðbænum.“