Landsbankinn ætlar að byggja nýjar höfuðstöðvar sínar við Austurhöfn í Reykjavíkur. Byggingin mun hýsa alla miðlæga starfsemi bankans og kostnaður við byggingu hússins með lóðarkaupum á að kosta átta milljarða króna. Nýbyggingin verður 14.500 fermetrar að stærð auk þess sem það verður um tvö þúsund fermetra kjallari fyrir tæknirými og fleira. Þá verður bílakjallari undir húsinu sem nýtist öllu svæðinu við Austurhöfn. Landsbankinn er að nánast öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.
Fyrirhugaðar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn. Myndin sýnir byggingarmagn, afstöðu og hæðartakmarkanir en ekki útlit nýbyggingarinnar.
Í tilkynningu frá bankanum segir: "Landsbankinn hefur með aðstoð sérfræðinga skoðað margar lóðir á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum og reyndist lóðin í Austurhöfn besti og hagkvæmasti kosturinn að mati bankans. Stærð lóðarinnar er hentug miðað við þarfir bankans og verð hennar í útboði var hagstætt, meðal annars þar sem jarðvinnu er að mestu lokið og að gatnagerðagjöld voru innifalin. Að auki má nefna góðar tengingar við almenningssamgöngur og möguleika á samnýtingu bílastæða á svæðinu sem sparar umtalsverðar fjárhæðir í byggingarkostnaði. Með því að byggja á þessum stað verður Landsbankinn áfram með starfsemi í miðborg Reykjavíkur og styður við öfluga og fjölbreytta atvinnustarfsemi í miðbænum."
Þar segir einnig að kostnaðurinn við nýbygginguna sé áætlaður um átta milljarðar króna og að áætlað sé að fjárfestingin borgi sig upp á tíu árum. "Ef bankinn yrði áfram á sama stað þyrfti að leggja í umtalsverða fjárfestingu við núverandi húsnæði. Við flutning starfseminnar mun bankinn að auki selja fasteignir fyrir vel yfir einn milljarð króna. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður húsnæðis lækki um 700 milljónir króna á ári. Núvirtur ávinningur af flutningi bankans í nýtt húsnæði við Austurbakka er metinn 4,3 milljarðar króna og innri raunávöxtun 8,3% (IRR) sem er töluvert yfir vegnum fjármagnskostnaði bankans. "
Forsætisráðherra útilokaði bygginguna fyrir tveimur árum
Forsvarsmenn Landsbankans tilkynntu sumarið 2013 að uppi væru stórhuga áform um að reisa nýjar höfuðstöðvar bankans á hafnarbakkanum í Reykjavík við hlið Hörpunnar. Þá sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtali við Eyjuna, aðspurður um áformin,: " „Mér virðist útilokað að ríkisbankinn muni byggja nýjar höfuðstöðvar á næstunni. Það eru mörg mál sem þarf að leysa fyrst[...] Það er full ástæða til að endurskoða áform sem uppi voru fyrir efnahagshrunið um byggingu stórra skrifstofubygginga milli Hörpu og Kvosarinnar[...]Það væri afleitt ef miðbærinn yrði alveg lokaður frá hafinu og útsýninu að Esjunni með stórbyggingum sem væru alveg úr takt við gamla miðbæinn og myndu gnæfa yfir hann. Það ætti frekar að líta til þess hvernig byggðin var áður en hún vék fyrir áformum um stórbyggingar og bílastæðum”.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, tók undir með flokksbróður sínum í pistli sem birtist skömmu síðar.
Í maí 2014 sagði Sigmundur Davíð á Alþingi, í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem nýjar höfuðstöðvar Landsbankans voru til umræðu: "Ég skal alveg viðurkenna að mér þykir óneitanlega mjög sérkennilegt ef menn eru farnir að velta því fyrir sér einungis fimm árum eftir að bankinn komst í þrot og skrapp í framhaldi af því mikið saman að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar, ég tala nú ekki um ef það yrði risastór glerhöll á dýrasta stað borgarinnar og þar með landsins. Það er reyndar önnur saga".