Slitastjórn þrotabús Landsbankans hefur enn og aftur framlengt lokadagsetningu á frágangi samkomulags milli sín og nýja Landsbankans um lengingu á greiðslum af skuldabréfi upp á 228 milljarð króna sem nýi bankinn skuldar þrotabúinu. Lokafrestur til að ganga frá samkomulaginu átti að vera 24. október, var síðan framlengdur til dagsins í dag og hefur nú verið lengdur til 17. nóvember.
Væntingar kröfuhafa Landsbankans stóðu til þess að Seðlabanki Íslands og stjórnvöld myndu gefa svar í lok síðustu viku um hvort undanþága fengist frá fjármagnshöftum til að ganga frá samkomulaginu. Það gekk ekki eftir. Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, sagði við Kjarnann á þriðjudag að engin svör hefðu borist.
Kjarninn fjallaði ítarlega um málið í fréttaskýringu í síðustu viku.