Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að fresta hönnunarsamkeppni um fyrirhugaða nýbyggingu bankans við Austurhöfn. Samkeppnin átti að hefjast síðar í ágúst. Frá þessu er greint á vefsíðu bankans, þar sem kemur fram að þetta sé gert til að fara yfir þau sjónarmið sem fram hafi komið á síðustu vikum.
Landsbankinn tilkynnti í fyrri hluta júlí að nýjar 14.500 fermetra höfuðstöðvar bankans rísi við hlið Hörpu í Austurhöfn í Reykjavík. Byggingaráformin mættu harðri gagnrýni, meðal annars frá stjórnarþingmönnum og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. Hann sagði það undarlegt að banki í almanneigu ætli að fara gegn vilja eigandans í málinu. Landsbankinn er að nær öllu leyti í eigu ríkisins.
Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir í samtali við Kjarnann að hugmyndasamkeppninni sé frestað til þess að hægt sé að fara yfir þau sjónarmið sem hafa verið sett fram á síðustu vikum. Spurður hvort sterk viðbrögð hafi komið á óvart svarar hann því bæði játandi og neitandi. „Við vissum að ákveðinn hópur fólks yrði á móti og myndi finna áformunum öllu til foráttu. En gagnrýnin var meiri og víðtækari en menn reiknuðum með. Við töldum liggja fyrir góð rök með framkvæmdunum, meðal annars fjárhagsleg rök sem fengu litla sem enga athygli. Við vissum að þetta yrði umdeilt,“ seigr hann.
Landsbankinn hefur sagt að með núvirtur ávinningur af því að flytja bankann í nýtt húsnæði við Austurbakka sé metinn á um 4,3 milljarða króna, en starfsemi bankans er nú rekin í mörgum byggingum. Þá hafa forsvarsmenn bankans sagt lóðaverðið hagstætt og stærð lóðarinnar hentugt miðað við þarfir bankans.
Ekki liggur fyrir um hvenær næstu skref verða tekin í málinu né hver þau verða. Endanlegt ákvörðunarvald um byggingu nýrra höfuðstöðva liggur hjá bankaráði Landsbankans.
Fyrirhugaðar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn. Myndin sýnir byggingarmagn, afstöðu og hæðartakmarkanir en ekki útlit nýbyggingarinnar.