Landsbankinn og slitastjórn LBI (gamli Landsbankinn) hafa náð samningum um að Landsbankinn fyrirframgreiði á þessu ári endurgreiðslur skuldabréfa í erlendri mynt að jafnvirði um 47 milljarða króna. Samkomulagið er háð þeim fyrirvara að Landsbankanum takist að fjármagna fyrirframgreiðsluna á kjörum sem Landsbankinn telur ásættanleg.
Samkomulag milli bankans og slitabúsins var gert á fimmtudaginn í síðustu viku, að því er kemur fram á heimasíðu bankans. Um er að ræða skuldabréf á gjalddaga í október 2016 og að hluta skuldabréf sem eru á gjalddaga í október 2018.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að bankinn ætli sér að sækja fjármagn með útgáfu skuldabréfa í gegnum kauphöllina í Dyflinni. Þar hefur Landsbankinn þegar skráð svokallaðan EMTN-útgáfuramma og er því í raun allt til reiðu, að því er haft er eftir Kristjáni Kristjánssyni, upplýsingafulltrúa bankans.
Eins og áður hefur verið greint frá þá er það vilji Landsbankans að greiða fyrirfram hluta af um 200 milljarða skuld gagnvart slitabúinu strax á þessu ári. Nú hefur verið samið um að fyrirframgreiðslan nemi um 47 milljörðum króna. Í viðtali við fréttastofu Bloomberg nýverið sagði Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, að fyrirframgreiðslan gæti verið báðum aðilum hagstæð. Þannig fái bankinn mögulega betri kjör með útgáfu skuldabréfa á markaði og endurgreiðslan liðki fyrir uppgjöri slitabúsins.