Vegna hagræðinga og breytinga á rekstri Landsbankans fækkar um þrjátíu manns í höfuðstöðvum Landsbankans og að auki hefur ráðningasamningum fastráðinna starfsmanna í afgreiðslu bankans í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verið sagt upp, en þar starfa þrettán manns. Uppsögnin í Leifsstöð verður afturkölluð, haldi bankinn áfram að sinna fjármálaþjónustu í flugstöðinni eins og verið hefur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum, sem Viðskiptablaðið vitnar til á vef sínum.
Íslenska ríkið á 98 prósent hlut í Landsbankanum og tvö prósent hlutur í er í höndum starfsmanna bankans. Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra nam 20 milljörðum króna, en heildareignir bankans nema ríflega 1.200 milljörðum.
Í tilkynningunni segir að ákvörðun um uppsögn starfsfólks í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sé varúðarráðstöfun af hálfu Landsbankans vegna óvissu um framhald starfseminnar þar. Þjónustusamningi bankans var sagt upp á síðasta ári og tilkynnt að fjármálaþjónusta yrði boðin út og átti það að gerast á síðastliðnu hausti. Af því varð ekki og í lok árs var gerður viðauki við þjónustusamning Landsbankans sem fól í sér að afgreiðsla bankans yrði opin til 30. júní 2015. Óvissa ríki því um það hver muni sinna fjármálaþjónustu í Leifsstöð eftir það.
Í tilkynningunni segir ennfremur að Landsbankinn hyggist taka þátt í útboði Isavia um bankaþjónustu þegar það verður auglýst.
Vegna þess fjölda sem um ræðir falla hagræðingaraðgerðirnar undir skilgreiningu hópuppsagna og hefur viðkomandi yfirvöldum verið tilkynnt um þær, segir í tilkynningu Landsbankans.
Landsbankinn_Fréttatilkyning_Áframhaldandi hagræðing í Landsbankanum_janúar 2015