Landsbankinn seldi jörðina Fljótshólar 2 og 3 í Flóahreppi til Ragnars Stefánssonar og Sólveigar Bjarkar Einarsdóttur á 46 milljónir króna í október árið 2012. Þetta kemur fram í kaupsamningi vegna jarðarinnar, sem Kjarninn hefur undir höndum. Brunabótamat jarðarinnar hljóðar upp á 50,5 milljónir króna.
Nú er helmingshlutur jarðarinnar, sem er sögð ein flottasta frístundajörð Suðurlands samkvæmt fasteignaauglýsingu, auglýst til sölu fyrir 45 milljónir króna. Jörðin liggur niður að sjó og að Þjórsárósum vestan megin, og er í 45 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborginni.
Fasteignasalinn sem annast söluna á jörðinni, Sigurbjörn Á. Friðriksson hjá fasteignasölunni TORG, brást ókvæða við fyrirspurn blaðamanns Kjarnans og vildi engar upplýsingar veita, og sagði málið blaðamanninum óviðkomandi.
Þrettán fasteignir, þar af tvö íbúðarhús
Á jörðinni eru þrettán fasteignir, svo sem hesthús, hlöður, sem eru samtals um ellefu hundruð fermetrar að stærð, þar af nýuppgert 223 fermetra íbúðarhús sem og annað minna íbúðarhús um sjötíu fermetrar að stærð. Jörðin er 113 hektarar að stærð, þar af 23 hektarar af ræktuðu landi og 90 hektarar undir bithaga, en þar að auki eru 250 hektarar, aðallega sandar og leirur, í sameigu með Fljótshólum 1 og 4.
Á meðal jarðhlunninda má nefna netalagnir og stangveiði fyrir lax og sjóbirting í Þjórsá, reki og selveiði, silungsveiði í lækjum og síkjum á landareigninni, fuglaveiði á leirum, söndum, í túnum og högum. Þá er, samkvæmt fasteignaauglýsingu, góður möguleiki til hrossaræktunar og tómstundabúskapar, svo sem sauðfjárræktunar og garðávaxtaræktunar.
Eins og áður segir keyptu Ragnar Stefánsson og Sólveig Björk Einarsdóttir jörðina af Landsbankanum í október 2012 fyrir 46 milljónir króna. Nokkrum dögum síðar, eða þann 7. desember 2012, seldu þau 75 prósent af jörðinni til þriggja einstaklinga sem eignuðust allir fjórðungshlut hver. Kaupverðið er ekki að finna í þinglýstum gögnum vegna sölunnar. Þá er Sólveig Björk ekki lengur skráð sem einn eigenda að jörðinni.