Landsbankinn stefnir að því að hefja endurfjármögnun á um 200 milljarða króna skuldum gagnvart þrotabúi gamla Landsbanka Íslands (LBI) á þessu ári. Steinþór Pálsson, bankstjóri Landsbankans, segir í samtali við fréttastofu Bloomberg að í krafti nýlegrar uppfærslu á lánshæfiseinkunn bankans þá sé útlit fyrir að fjármögnun sé hagstæðari á markaði heldur en hjá gamla bankanum. Skuld bankans gagnvart þrotabúinu verði þó ekki endurfjármögnuð í einu skrefi. Steinþór segir að það gæti verið bæði þrotabúinu og bankanum hagstætt að lánin verði endurfjármögnuð á markaði og endurgreidd þrotabúinu.
Þrotabú LBI og Landsbankinn komust að samkomulagi í fyrra um lengingu lánanna til ársins 2026 á óbreyttum 2,9 prósent vöxtum yfir LIBOR-millibankavöxtum fram til ársins 2018. Eftir 2020 mun vaxtaálag yfir LIBOR hækka í 4,05 prósent á ári.
Steinþór segir að endurfjármögnun yrði alltaf gerð í skrefum og það fyrsta verði jafnvel tekið í haust. Það myndi auðvelda slitastjórn LBI að gera upp við forgangskröfuhafa.
Íslandsbanki og Arion banki hafa báðir þegar sótt sér fjármagn á erlendum mörkuðum. Í mars síðastliðnum gaf Arion banki út 300 milljóna evra skuldabréf á kjörum sem voru 3,1 prósentum yfir millibankavöxtum. Frá útgáfunni hafa vextir lækkað á skuldabréfamarkaði. Í frétt Bloomberg er haft eftir Steinþóri að kjör Arion banka séu uppörvandi.