Slitabú gamla Landsbankans áætlar að Landsbankinn endurgreiði nærri 50 milljarða króna í erlendri mynt inn á rúmlega 200 milljarða króna skuld sína gagnvart slitabúinu fyrir árslok. Það er nærri 20 milljörðum króna hærri greiðslu en gert var ráð fyrir í samkomulagi stærstu kröfuhafa gamla Landsbankans (LBI) við framkvæmdahóp stjórnvalda um losun hafta frá því í júní síðastliðnum.
Þetta kemur fram í DV í dag en blaðið hefur undir höndum gögn sem slitastjórn LBI sendi kröfuhöfum í fyrradag. Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsbankanum, staðfestir í samtali við DV að til skoðunar sé að greiða allt að 50 milljarða inn á skuldina, fyrr en skuldabréfið gerir ráð fyrir. Þegar hafi verið ákveðið að greiða upp á þessu ári ríflega 30 milljarða sem eru að óbreyttu á gjalddaga á næsta ári. Sú upphæð gæti orðið hærri.
Leita á erlenda markaði
Í samtali við fréttastofu Bloomberg í síðustu viku, og Kjarninn greindi frá, greindi Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, frá áformum um að bankinn sæki sér fjármagn á erlendum mörkuðum í ár. Hann sagði útlit vera fyrir að kjör þar geti verið hagstæðari en á láni gagnvart gamla bankanum og því vilji bankinn endurfjármagna það lán og endurgreiða slitabúinu. Íslandsbanki og Arion banki hafa báðir sótt sér fjármagn erlendis.
Þrotabú LBI og Landsbankinn komust að samkomulagi í fyrra um lengingu lánanna, alls um 200 milljarðar króna, til ársins 2026 á óbreyttum 2,9 prósent vöxtum yfir LIBOR-millibankavöxtum fram til ársins 2018. Eftir 2020 mun vaxtaálag yfir LIBOR hækka í 4,05 prósent á ári.
Steinþór sagði í viðtali við Bloomberg að það gæti verið báður aðilum hagkvæmt að lánið verði endurgreitt, Landsbankinn gæti fundið betri kjör á markaði og endurgreiðslan myndi auðvelda slitastjórninni að greiða kröfuhöfum.