Hjá Landspítalanum eru ekki til nein tilraunalyf við ebólu-veirunni, en sum þeirra eru sögð hafa orðið ebólu-smituðum til lífs. Ástæða þess að spítalinn hefur enn ekki falast eftir tilraunalyfjunum er sú, að virkni þeirra hefur ekki verið staðfest með óyggjandi hætti.
Norsk hjúkrunarkona, sem smitaðist af ebólu í Síerra-Leóne, og hefur náð heilsu er sögð hafa fegnið tilraunalyfið ZMapp við veirunni á Ulleval sjúkrahúsinu í Ósló. Fjölmiðlar sögðu frá því í byrjun október, að Norðmenn hefðu fengið síðasta skammtinn af lyfinu, en langan tíma taki að framleiða það. Þá hefur spænskur hjúkrunarfræðingur, sem smitaðist af ebólu-veirunni í Vestur-Afríku, sömuleiðis náð bata en hann fékk blóðvökva frá trúboða frá Miðbaugs-Gíneu sem náði að vinna bug á veirunni.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum eru þar til staðar lyf sem notuð eru til meðhöndlunar á öðrum veirusýkingum, svo sem alnæmi. Þau hafa í einhverjum tilfellum gefist vel við meðhöndlun ebólusmitaðra. Þegar og ef ebólu-smitaður sjúklingur komi til meðhöndlunar á spítalanum verði tekin ákvörðun um hvort óskað verði eftir tilraunalyfjum við veirunni. Þá verði stuðst við nýjustu upplýsingar um virkni lyfjanna, sem breytast ört dag frá degi. Fram að því verði gripið til stoðmeðferða, svo sem blóð- og vökvagjafa.
Sérstakt viðbragðsteymi Landspítalans vegna ebólu faraldursins, hefur æfingar í dag. Spítalinn biðlaði til heilbrigðisstarfsfólks innan spítalans að gefa kost á sér í þrjátíu manna teymi. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur bróðurpartur teymisins verið mannaður.