Landspítalinn byrjaði í gær að auglýsa eftir sjálfboðaliðum, á meðal heilbrigðisstarfsfólks spítalans, í sérstakt viðbragðsteymi vegna ebólu-faraldursins. Teymið er hluti af viðbragðsáætlun sjúkrahússins vegna heimsfaraldursins. Spítalinn hyggst ekki skikka starfsfólk í teymið, en því er ætlað að meðhöndla ýmist einstaklinga sem smitaðir eru af veirunni, eða þá sem eru grunaðir um að vera smitaðir. Enn hefur engin Íslendingur smitast af veirunni, svo vitað sé.
Tólf hjúkrunarfræðinga þarf til að annast hvern sjúkling
Til marks um umfang viðbragðsáætlunar Landspítalans, gerir hann ráð fyrir tólf hjúkrunarfræðingum á hvern sjúkling á sólarhring. Skipulagið gerir ráð fyrir að tveir hjúkrunarfræðingar, í sérstökum þartilgerðum hlífðarbúningum, annist hvern sjúkling tvo til þrjá tíma í senn. Ör vaktaskipti má rekja til hlífðarbúninganna, sem einungis er hægt að klæðast stuttan tíma í senn, en hverjum búningi er fargað eftir hverja notkun. Enda smithætta mest þegar farið er úr og í gallana. Viðbragðsteymið mun undirgangast strangar æfingar, til að vera við öllu búið þegar og ef upp kemur ebólu-tilfelli á Íslandi.
Helst hafa þrjár sviðsmyndir. varðandi mögulega komu ebólu veirunnar til landsins, verið nefndar. Að Íslendingur smitist af veirunni erlendis, komi með hana til landsins einkennalaus og veikist svo. Einstaklingur smitaður af ebólu-veirunni getur verið einkennalaus í allt að þrjár vikur, en hann er þó ekki smitandi fyrr en sjúkdómseinkennin koma í ljós. Önnur sviðsmyndin gerir ráð fyrir að farþegaþotu verði nauðlent á Íslandi með smitaðan einstakling, sem hafi farið að sýna einkenni ebólu í lofthelgi Íslands, og sú þriðja að smitaður Íslendingur komi inn á spítalann af götunni.
Getur tekið 3-4 daga að sannreyna smit
Komi upp grunur um smitaðan einstakling á Íslandi, getur það tekið þrjá til fjóra daga að fá smit hans staðfest, þar sem senda þarf sýni úr viðkomandi til Stokkhólms til greiningar. Greiningartími annars staðar, þar sem öll tæki og tól eru til staðar til sýnagreiningar, hleypur á nokkrum klukkustundum.
Ef upp kemur tilvik þar sem grunur leikur á að Íslendingur hafi smitast erlendis, er ekki víst að hann verði sendur til Íslands. Þá verður vafalítið reynt að koma honum á sjúkrastofnun þar sem hvað bestu mögulegu aðstæður eru fyrir hendi, en sú er ekki raunin hér á landi. Meðal annars var fjallað um þetta á fundi Svalbarðanefndarinnar, sem er samráðsvettvangur Norðurlandanna um heilbrigðisviðbúnað, á fundi sem fram fór í síðustu viku í Reykjavík.
Dánartíðni þeirra sem smitast af ebólu er 40 til 90 prósent, en til þessa hafa yfir 4500 manns látist af völdum veirunnar. Ástæða þess að dánartíðnin er svo á flökti er sú að tölur frá Vestur-Afríku eru á reiki. Því hefur verið spáð að í lok janúar verði um 1,4 milljónir manna smitaðir af ebólu-veirunni, ef ekki tekst að hamla útbreiðslu hennar. Ebólu faraldurinn er versta heilbrigðisvá sem steðjað hefur að heimsbyggðinni á sögulegum tímum.