Landsvirkjun og Thorsil hafa komist að samkomulagi um drög að rafmagnssamningi um afhendingu á rafmagni til kísilvers sem Thorsil ætlar að reisa í Helguvík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvikjun.
Fyrr í mánuðinum hafði Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, greint frá því að búið væri að tryggja orkuafhendingu til kísilversins. Hann vildi hins vegar ekki upplýsa hvaðan orkan kæmi né á hvaða verði hún yrði keypt. Þá sagði Landsvirkjun að ekki væri búið að ganga frá neinum samningum.
Kísilverið á að gangsetja á fyrsta ársfjórðungi 2018, segir Landsvirkjun. Samkvæmt samningsdrögunum mun Landsvirkjun afhenda Thorsil allt að 67 MW, en orkan verður afhent í áföngum úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar ásamt stækkun við Búrfellsvirkjun. Síðasti áfangi orkuafhendingarinnar eru sagður koma til við gangsetningu Hvammsvirkjunar um mitt ár 2020.
Hákon sagði við Fréttablaðið fyrr í mánuðinum að fyrirtækið hefði tryggt sé 87 MW orku, sem áætlað væri að þyrfti til að framleiða 54 þúsund tonn af kísilmálmi á ári.
Samkvæmt Landsvirkjun munu samningsdrögin milli Landsvirkjunar og Thorsil nú fara í undirbúningsferli hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og niðurstöðu stofnunarinnar verður beðið áður en samningurinn verður tekinn til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í stjórn Landsvirkjunar.
Þá hefur HS Orka tilkynnt að félagið hafi undirritað orkusölusamning við Thorsil um afhendingu á allt að 32 MW til kísilversins.
Landsnet og Thorsil skrifuðu í síðustu viku undir samkomulag um raforkuflutninga fyrir kísilver Thorsil í Helguvík. Kostnaður við það að tengja kísilverið við meginflutningskerfi Landsnets er um 2,5 milljarðar króna, en tengingin verður gerð með lagningu 132 kílóvolta jarðstrengs á milli Fitja og Stakks, tengivirkis Landsnets, sem verið er að byggja í Helguvík. Framkvæmdir eiga að hefjast næsta haust.
Í DV í byrjun mánaðarins var greint frá því að Reykjaneshöfn hefði gefið Thorsil greiðslufrest á gatnagerðargjöldum vegna lóðarinnar undir verksmiðjuna. Gjöldin áttu að greiðast 30. september síðastliðinn en gjalddaganum var frestað til 15. desember. Hákon Björnsson vildi ekki upplýsa um hversu háa upphæð er um að ræða.
Thorsil er stærsti viðskiptavinur Reykjaneshafnar, sem hefur fengið greiðslufrest út nóvembermánuð til að greiða skuldir sínar. Ljóst er að litlar tekjur Reykjaneshafnar, sem hún þarf til að geta staðið við greiðslur af lánum, aukast ekki á meðan stærsti viðskiptavinur hennar greiðir ekki umsamin gjöld á réttum tíma.