Strákarnir okkar eru mættir til furstadæmisins Katar og hefja leik á HM í handbolta á morgun. Þá etja þeir kappi við Svía. Óhætt er að segja að HM í handbolta fari fram í landi ævintýralegra öfga, þegar kemur að íburði og efnahagslegum veruleika.
Í þessu smáríki í Mið-Austurlöndum sem skagar út í Persaflóann er að finna miklar náttúruauðlindir sem hafa gjörbylt eyðimerkurríkinu í eitt auðugasta ríki veraldar. Í það minnsta á þann mælikvarða sem oft er notaður til að mæla velsæld. Verg landsframleiðsla á mann nemur ríflega 100 þúsund Bandaríkjadölum og er hvergi í heiminum meiri. En þær tölur segja lítið sem ekkert um samfélagið og grunn þess. Árleg landsframleiðsla í Katar nemur um 200 milljörðum Bandaríkjadala á ári, um 260 þúsund milljörðum króna (26.000.000.000.000), miðað við tölur The Economist. Til samanburðar þá nemur landsframleiðslan hér á landi um 1.800 milljörðum króna (1.800.000.000.000) á ári. Þetta gefur fólki kannski einhverja mynd af því hversu gríðarlegir sjóðir eru að byggjast upp í þessu olíufurstadæmi.
Al Thani ræður
Al-Thani fjölskyldan ræður næstum öllu í landinu. Ráðgjafarþingið semur lög landsins en lokorðið er hjá Emírnum. Hann er hæstráðandi samkvæmt skipan furstadæmisins og heitir Tamim bin Hamad Al Thani, tók við 2013, og forsætisráðherrann er Abdullah bin Nasser bin Khalifa Al Thani. Fjölskyldan því sem næst baðar sig í ótrúlegum auði ríkisins, á meðan almenningur nýtur ríkisdæmisins í litlu öðru en risavöxnum byggingum. Katar á þriðju stærstu gas- og olíulindir heimsins og eru þær metnar að minnsta kosti á um 30 milljarða tunna. Þrátt fyrir að umhverfið í olíuiðnaðinum sé sveiflukennt, eins og verðsveiflan úr 110 Bandaríkjadölum á tunnuna niður í 50 Bandaríkjadali á síðastliðnum sex mánuðum er til marks um, þá er efnahagslegur grunnur þessarar ríflega tveggja milljóna íbúa þjóðar bæði stór og sterkur. Landið er ríflega ellefu þúsund ferkílómetrar að stærð, og hefur byggt upp hálfgerðar skýjaborgir á undanförnum árum og áratugum. Doha er til marks um það. Stórar hallir og íburðarmiklar skrifstofu- og hótelbyggingar er það sem helst vekur athygli fólks sem til Katar kemur.
Byggingarnar hefja sig til himins í Doha.
Al Thani fjölskyldan hefur helst komið við sögu í umræðu hér á landi í tengslum við kaup á fimm prósent hlut í Kaupþingi, í lok september 2008, um viku áður en bankinn fór á hausinn. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson fjárfestir voru ákærðir í tengslum við viðskiptin, í hinum svokallaða Al Thani máli, og dæmdir í héraði í þriggja til fimm og hálfs árs fangelsi. Það verður tekið fyrir í Hæstarétti síðar í mánuðinum og hefur því ekki verið til lykta leitt ennþá í dómskerfinu.
Stutt saga velmegunar
Katar var breskt verndarsvæði fram til ársins 1971 þegar það fékk sjálfstæði. Það hefur þó verið furstadæmi frá því á 19. öld. Árið 1960 fannst olía fyrst í Katar og þá byrjaði ballið, ef svo má segja. Peningaflutningar til landsins hafa vaxið æ síðan og einnig utanríkispólitískt mikilvægi landsins. Með aðeins 54 ára olíuviðskiptasögu að baki, hefur Katar þegar myndað ógnarsterkt pólitískt samband við umheiminn, ekki síst við Bandaríkin og Bretland. Þannig eru fjárfestingasjóðir fjölskyldunnar umsvifamikir í Bretlandi og Bandaríkjunum, stunda viðskipti með verðbréf og fasteignir ekki síst. Auk olíuviðskiptanna sem eru grunnurinn að öllu saman.
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði landsliðsins, verður í eldlínunni með Íslandi í Doho. Það mun líklega fara vel um þá á 32. hæð Continental hótelsins í Doha.
Stórhuga áætlanir
Þrátt fyrir olíuauðinn hefur furstadæmið uppi stórhuga áform um uppbyggingu á ýmsum sviðum, og hafa sum þeirra ekki farið framhjá neinum. Einkum þegar kemur að ferðaþjónustu. Hótelbyggingar eru með allra íburðarmestu byggingar veraldar og golfvellirnir sem Al Thani fjölskyldan hefur beitt sér fyrir uppbyggingu á þykja hálfgert viðundur. Furstadæmið vinnur eftir þróunarstefnu þar sem lokamarkmiðið er að Katar verið sjálfbært og ekki háð náttúruauðlindum. Óhætt er að segja að það sé töluvert í það.
Leikir Íslands eru þessir á HM, en þeir verða sýndir á RÚV.
- janúar kl. 18.00 Ísland - Svíþjóð
- janúar kl. 16.00 Ísland - Alsír
- janúar kl. 18.00 Ísland - Frakkland
- janúar kl. 18.00 Ísland - Tékkland
- janúar kl. 16.00 Ísland - Egyptaland