Laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, gætu lækkað umtalsvert fari svo að íslenska ríkið eignist bankann að fullu. Laun Birnu voru 3,2 milljónir króna á mánuði í fyrra auk þess sem hún fékk 4,8 milljónir króna í bónusgreiðslu.
Starfskjör þeirra sem stýra ríkisstofnunum eða fyrirtækjum í eigu ríkisins falla undir lög um kjararáð, sem sett voru eftir bankahrun. Samkvæmt þeim mega þeir sem undir ráðið heyra ekki vera með hærri laun en forsætisráðherra. Vegna þessa var Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, „einungis“ með 1,5 milljónir króna í mánaðarlaun í fyrra auk þess sem hann fékk 175 þúsund krónur á mánuði í hlutabréfatengdar greiðslur. Því munaði rúmlega 20 milljónum króna á árslaunum Birnu og Steinþórs auk þess sem bónusgreiðslur hennar voru mun hærri.
Á mbl.is er sagt frá því að fjármála- og efnahagsráðuneytið segi í svari við fyrirspurn miðilsins um launamál Birnu að fari svo að ríkið eignist meirihluta í Íslandsbanka, þá muni það falla undir kjararáð að ákveða laun og starfskjör bankastjóra. Miðað við fyrri úrskurði kjararáðs, sem varða laun Steinþórs, eru allar líkur á því að laun Birnu muni lækka umtalsvert við breytingu á eignarhaldi á Íslandsbanka.
Auk þess var greint frá því í júlí að Birna, framkvæmdastjórar og stjórnarmenn Íslandsbanka, hefðu farið fram á kaupauka í tengslum við nauðasamninga og sölu bankans. Vildi hópurinn fá allt að eitt prósent hlut í bankanum, samkvæmt frétt Morgunblaðsins um málið. Virði þess hlutar er rúmlega tveir milljarðar króna. Ljóst er að litlar líkur eru á því að sá kaupauki verði veittur eignist ríkið bankann ,jafnvel þótt að ríkið selji hann fljótlega aftur.
Landsbankinn hefur lagt leiðréttingu til hliðar fyrir bankastjóra
Bankaráð og stjórnendur Landsbankans hafa verið ósátt með að laun bankastjóra falli undir kjararáð og telja að þau kjör sem bankinn geti boðið séu ekki samkeppnishæg við kjör stjórnenda í stærri fyrirtækjum á fjármálamarkaði. Bankaráðið sendi meðal annars erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem það kvartaði yfir gildandi fyrirkomulagi og taldi það geta brotið í bága við stjórnarskrá og samninginn um Evrópska efnahagssvæðisins. ESA ákvað hins vegar ekki að að hafast neitt í málinu.
Í ársskýrslu bankans vegna ársins 2012 voru 47 milljónir króna færðar sem varúðarfærsla vegna „hugsanlegra leiðréttinga eða afturvirkra breytinga á launum og starfskjörum bankastjóra á árunum 2011 og 2012“. Ekert meira hefur verið lagt til hliðar vegna mögulegrar leiðréttingar á launum Steinþórs.
Sjö framkvæmdastjórar Landsbankans, sem heyra ekki undir lög um kjararáð, voru með hærri laun en bankanstjórinn í fyrra. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka var með 4,3 milljónir króna á mánuði.
Bæði Arion banki og Íslandsbanki hafa auk þess tekið upp kaupaukakerfi sem juku tekjur stjórnenda þeirra.