Á síðasta ári hefur launavísitala Hagstofunnar hækkað um 7,7 prósent. Á sama tímabili hefur kaupmáttur launa hækkað um 5,4 prósent. Milli júlí og ágúst sl. hækkuðu laun um 0,3 prósent en kaupmáttur launa lækkaði um 0,2 prósent, samkvæmt mælingum Hagstofunnar.
Fram kemur í frétt Hagstofunnar um málið að í vísitölunni gæti áhrifa úrskurðar gerðardóms um launahækkanir fyrir félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og 18 stéttarfélögum í Bandalagi háskólamanna.
Hér að neðan má sjá hvernig laun hafa þróast samkvæmt þeim gögnum sem sótt eru úr launarannsókn Hagstofunnar, og einnig hvernig kaupmáttur launa hefur þróast. Sú vísitala byggir á launavísitölunni og verðlagsbreytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs.