Niðurstöðum svokallaðrar jafnlaunaúttektar sem endurskoðunarfyrirtækið PwC gerði fyrir RÚV árið 2012, í samræmi við samþykkta jafnréttisáætlun ríkisfjölmiðilsins, var stungið undir stól í framkvæmdastjórn RÚV og aldrei birt starfsmönnum fyrirtækisins eins og kveðið var á um í jafnréttisáætluninni. Reiði er á meðal kvenna innan RÚV vegna þessa, sem hafa krafist þess að launakönnunin verði birt.
Með því að fylgja ekki jafnréttisáætluninni, sem RÚV setti sér eins og lög gera ráð fyrir, gerðist ríkisfjölmiðillinn þar með brotlegur við jafnréttislög.
Í jafnréttisáætlun RÚV fyrir árin 2011 til 2014 segir að óháður aðili verði fenginn til að vinna launakönnun fyrir fyrirtækið, sem verði svo lögð fyrir framkvæmdastjórn og helstu niðurstöður gerðar aðgengilegar starfsfólki á innri vef. „Komi í ljós kynbundinn launamunur skal hann strax leiðréttur,“ eins og segir í jafnréttisáætluninni. Markmiðið: Að karlar og konur fái sömu laun og kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Eins og áður segir hafa niðurstöður jafnlaunaúttektarinnar aldrei komið fyrir sjónir starfsmanna RÚV.
Niðurstöður kynntar í framkvæmdastjórn, svo ekkert meir
Heimildir Kjarnans herma að Berglind Bergþórsdóttir, þáverandi mannauðsstjóri RÚV, sem hafði forræði yfir gerð jafnlaunaúttektarinnar, hafi kynnt framkvæmdastjórn fyrirtækisins helstu niðurstöður hennar á fundi í mars árið 2013. Þar hafi svo verið tekin ákvörðun um að birta ekki niðurstöður könnunarinnar, vegna athugasemda framkvæmdastjórnar RÚV við aðferðarfræði PwC við framkvæmd hennar. Samkvæmt heimildum Kjarnans kom fram allt að fimmtán prósenta kynbundinn launamunur hjá RÚV í launakönnuninni. Þá herma heimildir Kjarnans að engar formlegar athugasemdir við framkvæmd jafnlaunaúttektarinnar hafi borist PwC.
Í samtali við Kjarnann kvaðst Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, ekki muna eftir umræddri launakönnun og vísaði á Berglindi Bergþórsdóttur, sem vildi engum spurningum blaðamanns svara.
Reiði á meðal kvenna hjá RÚV - núverandi stjórn ypptir öxlum
Hópur kvenna innan RÚV hefur sótt fast að fá launakönnun PwC afhenta, án árangurs. Þá fór fulltrúi trúnaðarmanna hjá RÚV á fund hjá Magnúsi Geir Þórðarsyni, útvarpsstjóra, í lok febrúar og fór fram á að helstu niðurstöður launakönnunarinnar verði birtar. Niðurstöðurnar hafa enn ekki verið birtar, en í samtali við Kjarnann kvaðst Magnús Geir engar upplýsingar hafa um launakönnunina, né hvar hana sé að finna.
Jafnréttisstofa, sem hefur eftirlit með því að stofnanir og fyrirtæki fari eftir samþykktum jafnréttisáætlunum, hefur ekki óskað formlega eftir því að launakönnunin verði birt, eins og kveðið er á um í jafnréttisáætlun RÚV. Til þess þarf Jafnréttisstofa að hafa rökstuddan grun um brot á jafnréttislögum, en stofnuninni hafa engar formlegar kvartanir borist vegna málsins.
Lítill áhugi yfirstjórnar á jafnréttismálum
Björg Eva Erlendsdóttir, sem var stjórnarformaður RÚV þegar launakönnunin var gerð, rekur ekki minni til að niðurstöður hennar hafi verið kynntar í stjórn RÚV. „Og aðrir stjórnarmenn sem ég hef talað við muna ekki heldur eftir því. Það var í gildi jafnréttisáætlun, en eftir því sem ég best veit þá var aldrei byrjað að vinna eftir henni og við í stjórninni ýttum á eftir því að það yrði gert á stjórnarfundum. En það var nú mjög augljóst í rauninni af samsetningu yfirstjórnarinnar, eins og hún leit út þá, að áhugi á jafnréttismálum var ekki mikill.“
Þá kveðst Björg Eva hafa forvitnast um launakönnunina nýverið. „En hafi henni verið lokið einhvern tímann, sem ég veit ekki, þá er hún ónothæf í dag eftir þær breytingar sem Ríkistútvarpið hefur farið í gegnum þannig að það þyrfti að byrja upp á nýtt.“
Ný jafnréttisáætlun gerir ráð fyrir nýrri jafnlaunaúttekt
Samkvæmt fyrirliggjandi jafnréttisáætlun RÚV sem gildir fyrir árin 2015 til 2018, sem Jafnréttisstofa hefur samþykkt, og bíður birtingar, er gert ráð fyrir sambærilegri launakönnun innan ríkisfjölmiðilsins á tímabilinu.
„Skortur á jafnrétti í fjömiðlum bæði í stjórnum og umfjöllun um samfélagsmál hefur verið æpandi árum saman, og líka á Ríkisútvarpinu. Og ég bara harma það mjög mikið að það var ekki bætt úr því í minni tíð sem stjórnarformaður, ég hefði viljað það. Vonandi verða skref tekin í rétta átt núna, og það eru einhver merki um það, en betur má ef duga skal,“ segir Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður RÚV.