Launakostnaður sem íslenska ríkið greiðir vegna lækna mun hækka um tæp 30 prósent í kjölfar þeirra kjarasamninga sem gerðir voru við lækna í síðustu viku. Ekki er talið ósennilegt að heildarkostnaðarauki ríkisins verði mun hærri en 30 prósent þegar uppi er staðið þar sem samningurinn sem gerður var við Læknafélag Íslands felur líka í sér kerfisbreytingar sem gætu orðið kostnaðarsamar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Samningurinn sem undirritaður var gildir til 30. apríl 2017 en þorri launahækkananna koma til framkvæmda í ár. Í Morgunblaðinu segir „Samningurinn er afturvirkur frá júní í fyrra með 3,6% hækkun sem leggst ofan á launagrunninn og launataflan hækkar svo almennt um 10,2% frá seinustu áramótum. Ný launatafla tekur gildi sem felur í sér mismiklar hækkanir fyrir lækna, þar sem dregið er úr vægi álagsþátta í launum. Samkomulag varð einnig um að læknar fái 160 þús. kr. eingreiðslu en samningur þeirra rann út í janúar í fyrra. Kveðið er á um launahækkun um mitt þetta ár á móti kerfisbreytingum. Þá eru í samningnum launapottar sem greiða á úr í tengslum við skipulagsbreytingar og verkefni. Auk þessa hækka laun svo einnig á árunum 2016 og 2017".
Samningar náðust loks við lækna aðfaranótt 7. janúar síðastliðins. Verkfallsaðgerðir þeirra höfðu þá staðið yfir frá 27. október 2014. Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, sagði af þessu tilefni í samtali við RÚV að launahækkanir lækna samkvæmt nýja samningnum hefðu gjarnan mátt vera lægri.
Eiginlegt innihald kjarasamningsins verður ekki kynnt opinberlega fyrr en búið er að fara yfir það með félagsmönnum Læknafélagsins. Þeir munu í kjölfarið kjósa um samninginn.