Meirihluti atvinnuveganefndar ætlar að leggja til að átta virkjanir verða færðar úr biðflokki í nýtingaflokk rammaáætlunar, samkvæmt heimildum Kjarnans. Sjö af þeim átta eru Hvammsvirkjun, Urriðafossvirkjun, Hólmsá, Hagavatnsvirkjun, Skrokkalda og Hagöngur 1-2. Þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar sem nú stendur nú yfir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, sagði á Haustfundi Landsvirkjunnar á þriðjudag að það væri full þörf á því að endurskoða rammaáætlun og færa fleiri kosti úr biðflokki í nýtingarflokk. Í ræðu hennar kom fram að svo lengi sem óljóst væri hversu mikil orka væri til staðar hérlendis verði Ísland ekki fýsilegur kostur fyrir fjárfestingaverkefni. Rammaáætlun hafi átt að veita þessi svör, en það hafi ekki orðið raunin.
Í ræðu sinni sagði Ragnheiður Elín einnig: „Ég segi það hreint út. Ég tel vera fulla þörf á því að við förum út í nýja orkuvinnslukosti, til viðbótar við núverandi raforkuframleiðslu, hvot sem er í vatnsafli, jarðvarma og vindi. Ég tel að röksemdir séu til staðar til að færa fleiri virkjunarkosti úr biðflokki í orkunýtingarflokk, á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir úr fyrsta, öðrum og þriðja áfanga Rammaáætlunar. Og ég tel í þriðja lagi brýnt að hafist verði handa við undirbúning þeirra virkjunarkosta sem eru í orkunýtingarflokki, í samræmi við lög reglur“.
Rammaáætlun er áætlun sem umhverfis- og auðlindaráðherra leggur fram sem tillögu til Alþingis eigi síðar en á fjögurra ára fresti í samvinnu við þann ráðherra er fer með orkumál. Í rammaáætlun eru hugmyndir um orkunýtingu flokkaðar í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk. Fyrsta rammaáætlunin var samþykkt 14. janúar 2013. Hún nær til 67 virkjunarkosta en þar af voru 16 í orkunýtingarflokki, 31 í biðflokki en 20 í verndarflokki. Verði tillaga meirihluta atvinnuveganefndar að veruleika munu þeir kostir sem verða í nýtingarflokki verða 24 í stað 16.