Stjórn Félags leiðsögumanna, hvetur alla félagsmenn til að standa með öðrum starfsstéttum sem neyðsta hafa til að grípa til „verkfallsvopnsins“ eins og orðrétt segir í tilkynningu frá félaginu. „Félag leiðsögumanna hvetur alla félagsmenn sína til að standa með öðrum starfsstéttum sem neyðst hafa til að grípa til verkfallsvopnsins til að knýja fram nauðsynlegar kjarabætur,“ segir í tilkynningunni.
Útlit er fyrir að verkfallsaðgerðir á næstu vikum getu haft víðtæk áhrif á ferðaþjónustu, en aðgerðir hefjast að óbreyttu að miðnætti 28. maí með verkfalli hópferðarbílstjóra.
Aðrar aðgerðir koma síðan ein af annarri.
- Frá 00:00 30. maí til 24:00 31. maí er áætlað verkfall hótelstarfsfólks. Við það mun þjónusta á hótelum mögulega skerðast.
- Mögulegt verkfall starfsmanna flugafgreiðsluaðila er áætlað frá klukkan 00:00 31. maí til 24:00 1. júní. Starfsmenn flugafgreiðsluaðila sem þjónusta flugfélög á Keflavíkurflugvelli meðal annars við eldsneytisafgreiðslu, innritun og að hlaða farangri um borð í flugvélar. Verkfall þeirra myndi geta haft áhrif á flugsamgöngur.
- Mögulegt verkfall starfsmanna olíufélaga frá klukkan 00:00 4. júní til 24:00 5. júní getur haft áhrif á bæði innanlands- og millilandaflug.
- Ef ekki semst fyrir 6. júní gæti komið til allsherjarverkfalls hjá VR, Eflingu, Hlíf og VSFK. Ef af verður getur það haft áhrif á bæði innanlands- og millilandaflug.
Í tilkynningu frá leiðsögumönnum eru félagsmenn hvattir til að ganga ekki í störf annarra.
„Sérstaklega eru félagsmenn hvattir til þess að ganga ekki í störf annarra s.s. bílstjóra. Að auki er áréttað að samkvæmt því sem ASÍ segir um vinnurétt, þá skulu önnur stéttarfélög gæta þess að félagsmenn þeirra séu ekki látnir ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli,“ segir í tilkynningu frá félaginu.