Persónuvernd hefur borist kæra vegna lokaðs hóps á Facebook þar sem leigubílstjórar deila upplýsinum um farþega sín á milli. Á meðal þess sem er sett inn í hópinn eru myndir, myndbandsupptökur og umræður um að forðast beri ákveðinn mann sökum þess að sé smitaður af HIV. Um 800 manns eru í hópnum.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar er rætt við framkvæmdastjóra Hreyfils-Bæjarleiða, en hópurinn á Facebook ber sama nafn. Sæmundur Kristján Sigurlaugsson framkvæmdastjóri segir hópinn ekkert tengjast starfsemi leigubílastöðvarinnar og óheimilt sé að nota nafn hennar. Hann hafi fyrst fengið veður af hópnum og kærunni til Persónuverndar þegar Morgunblaðið talaði við hann.
„Við hörfmum það að menn skuli vera að tjá sig um einhverja persónulega reynslu úr starfi. Þagnarskylda er regla númer eitt, tvö og þrjú,“ segir hann. Einn stjórnenda síðunnar er leigubílstjóri hjá Hreyfli-Bæjarleiðum og segir Sæmundur að honum verði gert að loka síðunni samstundir. „Ég get lítið sagt annað en það að þetta samræmist alls ekki stefnu Hreyfils. Það verður tekið á þessu hjá okkur eftir helgi þó svo að þetta sé stöðinni óskyld síða.“