Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 138,57 stig í september 2014 (janúar 2011=100) og hækkaði um 0,7% frá fyrri mánuði. Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitalan um 3,6% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 6,7%, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá ríkisins. Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs.
Hæst er leiguverðið vestan Kringlumýrarbrautar og Seltjarnarness, en þar er fermetraverðið fyrir tveggja herbergja íbúð 2.458 krónur. Fyrir þriggja herbergja íbúð á fyrrnefndu svæði er kostnaðurinn tæplega 2.100 krónur á fermetrann að meðalti.
Spurningin um hvort það er hagstæðara að leigja eða kaupa íbúð brennur á mörgum þessa dagana. Ljóst er að greiðslubyrði af hefðbundnu 25 eða 40 ára húsnæðisláni með 80 prósent veðhlutfalli er í flestum tilvikum langt undir leiguverði sömu íbúðar, hvort sem kosið er að taka verðtryggt eða óverðtryggt. Þetta á sérstaklega við um eignir sem eru miðsvæðis í Reykjavík. Hins vegar geta aðrar forsendur ráðið því hvort það getur verið skynsamlegt fyrir fólk að kaupa eða leigja. Til dæmis áform um að dvelja í stuttan tíma á tilteknum svæðum eða önnur persónuleg atriði sem hafa áhrif á ákvörðunina í hverju tilviki fyrir sig.