Andreas Lubitz, flugmaður þotu Germanwings sem fórst í frönsku Ölpunum 24. mars, leitaði á vefnum að upplýsingum um dyr flugstjórnarklefa og sjálfsvíg dagana áður en vélin fórst með 150 manns um borð. Þetta segir saksóknari í Düsseldorf sem fer með rannsókn málsins. AP greinir frá þessu.
Þá hefur hinn flugriti vélarinnar fundist eftir níu daga leit en hann geymir upplýsingar af nærri öllum mælum þotunnar áður en hún fórst. Flugriti með upptökum af samskiptum áhafnarinnar fannst fljótlega eftir að björgunaraðgerðir hófust og var sá nokkuð skemmdur.
Í yfirlýsingu þýska saksóknarans segir að við leit á heimili Lubitz hafði fundist spjaldtölva og við skoðun hafi leitarsaga vafrans sýnt hvað hann hafi verið að lesa á vefnum. „Leitarsögunni hafði ekki verið eytt,“ segir í yfirlýsingunni.
„Samkvæmt vafrasögunni sést að notandinn var annars vegar að skoða upplýsingar um læknismeðferðir og hins vegar að lesa um mismunandi aðferðir og möguleika við að taka eigið líf.“ Þá virðist Lubitz hafa eytt nokkrum mínútum í leit að upplýsingum um dyr flugstjórnarklefa og öryggi þeirra.
Rannsókn á flugritanum sem fyrst fannst hefur leitt í ljós að Lubitz virðist hafa læst flugstjórann úti og verið einn við stjórn vélarinnar þegar hún fórst. Flugstjórinn heyrist á upptökunum ítrekað reyna að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefann eftir að Lubitz hafði ekki svarað skipunum hans.
Þá er búið að bera kennsl á lík og líkamsparta allra farþeganna 150 sem fórust með vélinni.