Lestur DV jókst um tæp 16 prósent í síðasta mánuði og mælist nú 8,6 prósent hjá aldurshópnum 12 til 80 ára. Þótt stökkið sé umtalsvert milli mánaða er vert að taka fram að lestur DV í apríl mældist 7,44 prósent, sem er langlægsta hlutfall lesenda frá því að DV kom aftur inn í mælingar á lestri í upphafi árs 2010. Frá því í september 2014, þegar eigendaskipti urðu á DV, hefur lestur blaðsins dregist saman um 22 prósent. Þetta kemur fram í nýjum tölum Gallup um þróun lestrar prentmiðla á Íslandi sem birtar voru í dag.
Lestur Fréttablaðsins, Fréttatímans og Morgunblaðsins dregst lítillega saman en Viðskiptablaðið bætir lítillega við sig á milli mánaða.
Ungum lesendum DV fjölgar
Lestur DV hefur dregist hratt saman undanfarna mánuði í kjölfar mikilla átaka um eignarhald miðilsins og mikilla breytinga á starfsmannahaldi. Reynir Traustason, fyrrum aðaleigandi DV og ritstjóri blaðsins, var ýtt út af miðlinum í sumarlok eftir að aðilar undir forystu Þorsteins Guðnasonar, sem lánað höfðu DV töluvert fé, tóku yfir fjölmiðilinn. Með Reyni hurfu á brott allir helstu stjórnendur DV og nokkrir blaðamenn. Flestir í þeim hópi stofnuðu síðar fjölmiðilinn Stundina.
Í dag er stærsti eigandi og útgefandi DV Björn Ingi Hrafnsson. Útgáfufélag hans heldur líka úti vefmiðlunum DV.is, Eyjan.is, Pressan.is og Bleikt.is.
Nú virðist vera að eiga sér stað nokkur viðspyrna því lestur blaðsins jókst hratt í síðasta mánuði. Hann á þó langt í land með að ná þeim hæðum sem lesturinn var í áður. Nú mælist hann svipaður og í febrúar síðastliðnum, eða í kringum 8,6 prósent. Aukningin er mest hjá fólki undir fimmtugu, en lesendum DV í þeim hópi fjölgaði um tæp 23 prósent í síðasta mánuði.
Standa nánast í stað
Ekki eru miklar breytingar á lestri stærstu prentmiðla sem taka þátt í prentmiðlamælingum Gallup.
Fréttablaðið er áfram sem áður langmest lesna dagblað landsins með 51,44 prósent lestur. Hann dróst saman um 0,35 prósentustig í síðasta mánuði og var nokkuð stöðugur þriðja mánuðinn í röð. Lestur blaðsins hefur hins vegar fallið skarpt þegar litið er yfir lengra tímabil og alls um 20 prósent á síðustu fimm árum. Fallið hefur sérstaklega verið mikið hjá Íslendingum undir fimmtugu en nú lesa um 45,03 prósent landsmanna í þeim aldurshópi blaðið.
Morgunblaðið, stærsta áskriftarblað landsins, stendur í stað á milli mánaða. Alls lesa 28,2 prósent allra landsmanna blaðið. Lesturinn hefur dregist mikið saman undanfarin ár líkt og hjá Fréttablaðinu.Til að setja það fall í samhengi má rifja upp að lestur Morgunblaðsins var 43 prósent árið 2009. Lesturinn hefur dregist skarpast saman hjá yngri lesendum. Í dag lesa undir 19 prósent Íslendinga undir fimmtugu blaðið og fækkaði þeim um 3,2 prósent á milli mánaða.
Viðskiptablaðið bætir áfram við sig
Fréttatíminn, sem kemur út einu sinni í viku og er dreift frítt, mælist með næstmestan lestur allra prentmiðla, en alls lesa 39,5 prósent landsmanna blaðið. Lesturinn dregst lítillega saman annan mánuðinn í röð.
Viðskiptablaðið, sem er selt í áskrift, mælist með mesta lestur sem það hefur mælst með síðan að blaðið kom aftur inn í mælingar Gallup í júní 2011, eða 12,4 prósent. Það bætir lítillega við sig á milli mánaða en lestur blaðsins hefur aukist sérstaklega mikið það sem af er árinu 2015.