Ummæli sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði að væri niðurstaða í punktaformi í meintum leyniskýrslum kröfuhafa, og snérust um að Framsóknarflokkurinn gæfi ekki eftir íslenska hagsmuni, voru höfð eftir Ásmundi Einari Daðasyni, aðstoðarmanni hans. Því vitnaði forsætisráðherrann í endursögn af orðum aðstoðarmanns síns þegar hann rakti innihald hinna meintu leyniskýrslna. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Leyniskýrslurnar fréttabréf Einars Karls
Ræða Sigmundar Davíðs á flokksþingi Framsóknarflokksins á föstudag vakti mikla athygli. Þar sagðist hann meðal annars vita að fulltrúar kröfuhafa hafi tekið saman persónulegar upplýsingar um stjórnmálamenn, blaðamenn og aðra sem hafa tjáð sig um losun hafta eða eru taldir líklegir til að geta haft áhrif á gang mála. Í sumum tilvikum hafi verið gerðar sálgreiningar á fólki til að átta sig á því hvernig best væri að eiga við það. Þessum upplýsingum væri safnað saman í leyniskýrslum.
„Í einni af fyrstu skýrslunum kom fram að ein helsta ógnin sem steðjaði að vogunarsjóðunum við að ná markmiðum sínum, ein helsta hindrunin í því að þeir gætu farið sínu fram, héti Framsóknarflokkurinn.
Og í einni af nýjustu skýrslunum eru helstu niðurstöður raktar í punktaformi á forsíðu. Þar blasir við eftirfarandi niðurstaða, orðuð svo á ensku: The Progressive Party stands firm on Icelandic interests.
Framsóknarflokkurinn gefur ekki eftir íslenska hagsmuni. Það mega þeir eiga þessir karlar, þeir eru með helstu staðreyndir á hreinu,“ sagði Sigmundur Davíð.
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var greint frá því að fulltrúar slitastjórna Glitnis og Kaupþings neiti því staðfastlega að hafa stundað njósnir eða látið gera fyrir sig sálgreiningar á stjórnmálamönnum og blaðamönnum og kannist ekki við að hafa séð slíkar skýrslur.
Orðið sem Sigmundur Davíð vitnaði til í ræðu sinni komu úr aðsendri grein aðstoðarmanns hans, Ásmundar Einars Daðasonar.
Í fréttaskýringu á DV.is í dag er síðan fullyrt að leyniskýrslurnar sem Sigmundur Davíð vísi til séu fréttabréf sem Einar Karl Haraldsson, almannatengill sem vinnur sem ráðgjafi slitastjórnar Glitnis, sendir reglulega út til kröfuhafa, að jafnaði tvisvar í mánuði. Í þeim er farið yfir helstu fréttir í íslenskum fjölmiðlum sem gætu verið á áhugasviði kröfuhafa.
Segir flokksmenn hafa fagnað eigin orðum á flokksþingi
Í fréttum Stöðvar 2 kom einnig fram að í nýjasta fréttabréfi kröfuhafanna, því 77. í röðinni, segi frá því að niðurstaðan sem Sigmundur Davíð rakti, að Framsóknarflokkurinn gefi ekki eftir íslenska hagsmuni, hafi í reynd verið endursögn á aðsendri grein sem Ásmundur Einar Daðason, einn aðstoðarmanna Sigmundar Davíðs, birti í Morgunblaðinu í upphafi árs. Í fréttabréfinu stendur: „„Framsóknarflokkurinn gefur ekki eftir íslenska hagsmuni.“ Þessi yfirlýsing hlaut lófatak viðstaddra á flokksþingi Framsóknarflokksins. Það má telja kaldhæðið að yfirlýsingin er byggð á orðum pólitísks aðstoðarmanns forsætisráðherra sem hann setti fram í grein í Morgunblaðinu 22. Janúar 2015. Flokksmenn fögnuðu því eigin orðum á flokksþinginu. Góður spuni, að mínu áliti“.
Kjarninn fjallaði um grein Ásmundar Einars í janúar. Hana má lesa hér.