Kína þarf að ógna Bandaríkjunum frá Norðurslóðum til að Bandaríkin sýni Íslandi verulega aukin áhuga. Samskipi Íslands og Bandaríkjanna munu ráðast af samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu og hafa ekkert með íslenska ráðamenn að gera. Þannig mun stefna Bandaríkjanna gagnvart Íslandi byggist á samskiptum Bandaríkjanna við Kína og Rússland. En bandarískir ráðamenn líta þannig á að minnsti ávinningur Kína af samskiptum við Ísland skaði hagsmuni þeirra.
Þetta kemur meðal annars fram í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála Íslands þar sem Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands ræðir niðurstöður rannsókna sinna um utanríkismál við Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra og Piu Hansson forstöðumann Alþjóðamálastofnunar um samskipti Íslands og Bandaríkjanna.
Enn fremur kemur fram að áhugi Bandaríkjanna á Íslandi sé eigi að síður meiri en hann hafi verið lengi. Aukin áhersla Bandaríkjanna á varnir Ísland byggist á því að þau vilja minna Kína og Rússland á að Ísland sé á áhrifasvæði Bandaríkjanna. Hernaðarmikilvægi Íslands hafi hins vegar ekki aukist. Hernaðarleg umsvif Rússlands séu aðallega í heimahögum og ekki í hafinu í kringum Ísland. Umsvif Kína á Norðurslóðum séu auk þess lítil og hernaðarlega umsvif þeirra á Norðurslóðum hverfandi.
Samkvæmt viðmælendum er Kína ólíklegt til að ógna Bandaríkjunum frá Norðurslóðum næstu áratugina. Þeir segja að Ísland skipti áfram máli í tengslum við stuðning við sókn bandaríska flotans norður í höf ef til átaka kæmi. En Ísland sé langt frá því að gegna lykilhlutverki í vörnum Bandaríkjanna eins og það gerði á tímum kalda stríðsins.
Þá kemur fram í þættinum að bandarískir ráðamenn hafi eigi að síður áhyggjur af vaxandi samskiptum Íslands og Kína hvort sem það sé rétt eða ekki að samskiptin fari vaxandi. Bandaríkin og Ísland hafi nákvæmlega sömu hagsmuni þegar kemur að varnarmálum komi upp dómínerandi stórveldi í Evrópu. Þá skipti Ísland öllu máli fyrir öryggi Bandaríkjanna. Þetta sé þó ekki sviðsmynd sem líkleg sé að komi upp næstu áratugina.
Bandaríkin tekið þátt í því að hengja Ísland upp á snúru öðrum til varnaðar eftir hrunið
Aðildin að NATO og tvíhliða varnarsamingurinn við Bandaríkin tryggja enn varnir Ísland en Evrópuríki koma í vaxandi mæli að því að tryggja öryggi Íslands þegar kemur að nýjum fjölþjóða ógnum eins og netárásum og upplýsingaóreiðu sem og hryðjuverkaógn, að því er fram kemur hjá viðmælendum. Fjölþjóða ógnir séu lögreglumál og þá skipti nánari samvinna Íslands við Evrópuríki innan Schengen í lögreglu- og öryggismálum miklu máli.
Í þættinum kemur fram að það sé liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð vegna góðvildar. Bandaríkin hafi tekið þátt í því að hengja Ísland upp á snúru öðrum til varnaðar eftir hrunið. Einnig kemur fram að Íslendingar þurfi tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir. Íslenskir ráðamenn gætu þó leitað til Kína og þá gætu Bandaríkin haft frumkvæði að því að koma aftur hingað og veita Íslandi efnahagslegt skjól.
Staðan sé hins vegar þannig að Ísland er ekki eins háð Bandaríkjum og áður. Þess vegna þurfi ekki að vera sama áherslan í utanríkisstefnu Íslands á samskiptin við Bandaríkin.
Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan: