Sex lífeyrissjóðir sem eiga hlut í Símanum gera alvarlegar athugasemdir við kaupréttaráætlun sem stjórn félagsins ætlar að leggja fyrir hluthafafund sem haldinn verður næstkomandi þriðjudag, 8. september. Þeir telja að áætlunin kunni að leiða til þess að starfsfólki Símans verði afhentir hlutir í félaginu undir markaðsvirði, en hún gerir ráð fyrir því að starfsmennirnir fái að kaupa hluti fyrir um tvo milljarða króna á fimm ára tímabili.
Athugasemdirnar eru af ýmsum toga en alvarlegasta gagnrýnin snýr að því að allir starfsmenn Símans eigi að fá að kaupa fyrir 600 þúsund krónur á ári í fimm ár á genginu 2,5 krónur á hlut. Það er sama gengi og æðstu stjórnendur Símans, ásamt hópi innlendra og erlendra fjárfesta, fékk að kaupa fimm prósent hlut af Arion banka í síðustu viku. Sá hópur greiddi 1.330 milljónir króna fyrir hlutinn.
Á meðal þeirra sem keyptu var Orri Hauksson, forstjóri Símans. Hann hafði einnig frumkvæði af því að falast eftir hlutnum fyrir hönd hópsins.
Telja starfsmenn fá afhenta hluti undir markaðsvirði
Samkvæmt Morgunblaðinu gera lífeyrissjóðirnir athugasemdir við að verð á hlutum í félaginu sé fastsett fimm ár fram í tímann í stað þess að taka breytingum í samræmi við þróun markaðsverðs.Þetta gæti leitt til þess að starfsmenn fái afhent hluti undir markaðsvirði og samhliða muni hlutir annarra hluthafa, sem eru að mestu lífeyrissjóðir auk Arion banka, skerðast.Starfsmennirnir sem eiga að fá kauprétt eru um 680 talsins. Alls munu þeir geta, samkvæmt áætluninni, keypt hluti í Símanum fyrir um tvo milljarða króna næstu fimm árin og eignast með því 7,7 prósent hlut í félaginu. Síminn verður skráður á markað undir lok þessa árs.
Í Morgunblaðinu segir að kergja lífeyrissjóðanna sex, sem eru Almenni lífeyrissjóðurinn, Festa, Gildi, Lífsverk Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Stafir, snúi einnig að því að þeir hgafi ekki fengið kynningu á kaupréttaráætluninni áður en hún var kynnt formlega í síðustu viku. Sjóðirnir eiga samtals rúm 15 prósent í Símanum.
Sá lífeyrissjóður sem á stærstan hlut í Símanum utan Arion banka, Lífeyrissjóður verslunarmanna, hefur hins vegar lýst sig fylgjandi kaupréttaráætluninni. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur ekki tekið afstöðu til áætlunarinnar.
Stjórnendur og valdir fjárfestar fengu að kaupa
Greint var frá því seinni hluta ágústmánaðar að Arion banki hefði selt fimm prósent hlut í Símanum til hóps fjárfesta sem settur hafði verið saman af Orra Haukssyni, forstjóra Símans, á rúmlega 1,3 milljarða króna. Á meðal þeirra sem eru í kaupendahópnum eru nokkrir lykilstjórnendur innan Símasamstæðunnar, erlendir fjárfestar með reynslu af fjarskiptageiranum, fyrrum forstjóri Vodafone á Íslandi, gamall starfsmaður Kaupþings og fjárfestir sem farið hefur mikinn í því að hagnast á íslenskum hlutabréfamarkaði eftir hrun.
Kjarninn fjallaði ítarlega um söluna og kannaði hvað hefði valdið því að þessi hópur fékk að kaupa á þessu verði í ítarlegri fréttaskýringu fyrir skemmstu.