Íslenskir lífeyrissjóðir eiga, beint eða óbeint, um 43 prósent af skráðum félögum hérlendis. Ef horft er einvörðungu á beint eignarhald eiga sjóðirnir 36 prósent allra skráðra eigna. Afganginn eiga þeir í gegnum hlutdeild sína í verðbréfasjóðum í stýringu sjóðsstýringarfyrirtækja. Þetta kemur fram í rannsókn Hersis Sigurgeirssonar, dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sem Morgunblaðið greinir frá.
Hersir mun kynna niðurstöður sínar um eignarhald á íslenskum hlutabréfamarkaði á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í hádeginu í dag.Hersir skoðaði beint og óbeint eignarhald í þeim ellefu fyrirtækjum sem skráð voru á íslenskan hlutabréfamarkað í lok árs 2013. Alls tókst honum að skýra frá beinum eigendum 97,5 prósent af markaðnum. Þegar óbeinar eignir voru teknar með í reikninginn var ekki hægt að finna upplýsingar um eignarhald þrettán prósents markaðarins.
Næst stærsti hópurinn á eftir lífeyrissjóðunum eru erlendir aðilar. Þeir eiga á bilinu 20-24 prósent skráðra bréfa, annað hvort beint eða óbeint. Hlutur almennings, í beinni eigu, er einungis sjö prósent og ríkið á 3,2 prósent.