Lífeyrissjóður verslunarmanna er að bæta við sig ríflega 2,5 prósenta eignarhlut í MP Straumi og verður í kjölfarið stærsti hluthafi sameinaðs banka. Meðal hlutabréfa sem lífeyrissjóðurinn kaupir eru hlutabréf Jakobs Ásmundssonar, fyrrum forstjóra Straums. Hann lét af störfum í aðdraganda sameiningar Straums fjárfestingarbanka og MP banka. Eftir viðskiptin verður Lífeyrissjóður verslunarmanna stærsti hluthafi bankans. DV greinir frá þessu í dag.
Samkvæmt heimildum blaðsins eru kaup lífeyrissjóðsins í samræmi við ákvörðun sem tekin var af sjóðnum síðastliðinn vetur um að verja hlutdeild sína samhliða samruna MP banka og Straums fjárfestingabanka. Fyrir sameiningu átti lífeyrissjóðurinn 9,74 prósent hlut í MP banka en fór niður í 7,1 prósent við sameiningu. Eftir viðskiptin nú mun eignarhluturinn fara í tæp tíu prósent og vill sjóðurinn ekki eiga meira. Sjóðurinn vill ekki fara með virkan eignarhlut í félaginu, sem telst vera yfir tíu prósentum.
Sameiningu MP banka og Straums fjárfestingabanka lauk formlega í síðasta mánuði, þegar stjórnir samþykktu samrunann. Upphaflega stóð til að Sigurður Atli Jónsson, bankastjóri MP banka, og Jakob Ásmundsson myndu báðir stýra sameinuðum banka. Fyrir rúmum mánuði tilkynnti Jakob hins vegar að hann láti af störfum. Fram kemur í umfjöllun DV að eignarhlutur hans í bankanum við sameiningu hafi verið um 3,5 prósent sem gerir hann að 10. stærsta eiganda bankans, í gegnum eignarhaldsfélagið Jakás. Sé miðað við að bókfært eigið fé Straums og MP banka nam samtals um 8 milljörðum króna í árslok 2014 þá gæti hluturinn verið metinn á um 280 milljónir króna.