Lífsverk lífeyrissjóður, sem er lífeyrissjóður verkfræðinga og háskólamenntaðra sérfræðinga, hefur ákveðið að sækja tryggingarfélag sitt til greiðslu skaðabóta úr ábyrgðartryggingu sem sjóðurinn hafði keypt vegna starfa stjórnar og stjórnenda sjóðsins á árinu 2008. Dómsmál er nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem sjóðurinn freistar þess að fá bæturnar greiddar.
Þetta kemur fram í ársskýrslu sjóðsins, það er skýrslu stjórna, en sjóðurinn fór illa út úr hruni bankakerfisins og tapaði ríflega 14 milljörðum á árunum 2008 og 2009, sem þá nam 34 prósent af heildareignum.
Samanlögð iðgjöld ársins 2014 námu 3,5 milljörðum króna og námu samanlagðar lífeyrisgreiðslur 714 milljónum króna. Hlutfall lífeyris af samanlögðum iðgjöldum var 20,3 prósent.
Ávöxtun eigna sjóðsins hefur síðan gengið ágætlega, en raunávöxtun sjóðsins í fyrra var 6,3 prósent. Hrein eign sjóðsins nam 49,8 milljörðum króna í lok árs í fyrra, og hækkaði hún um tólf prósent. Heildareignir námu 57,7 milljörðum króna.