Innheimtuhlutfall Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) hefur farið versnandi síðustu ár með þeim afleiðingum að líkur hafa aukist á því að ríkissjóður þurfi að leggja sjóðnum til aukið fé. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun og þar er haft eftir Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, að áhætta sjóðsins hafi aukist. "Líkurnar á því að það þurfi að auka ríkisframlag vegna þess að innheimtuhlutfall hefur versnað verða meiri."
Samkvæmt úttekt sem stjórn sjóðsins lét gera árið 2013 kom fram að nafnvirði útlána sjóðsins hafi aukist um nálægt 60 prósent á árunum 2008 til 2012. Afskriftir sjóðsins uxu hins vegar um 67 prósent.
Í Fréttablaðinu segir að samkvæmt útreikningum Ríkisendurskoðunar sé núvirði meðalláns hjá LÍN 3,5 milljónir króna en mikil fjölgun hafi orðið á þeim sem fá undanþágur af afborgunum lánanna. Námstími hefur lengst og heildarumfang þeirra lána sem eru yfir 7,5 milljónir króna hefur aukist úr fimm í 26 milljarða króna á nokkrum árum. Samtala lána þeirra sem skulda meira en 12,5 milljónir króna hefur aukist úr einum milljarði í níu milljarða króna á sama tíma.
Ný lög um LÍN eru á þingmálaskrá en litlar líkur eru á að þau verði lögð fram á yfirstandandi þingi. Þau eiga að endurskoða starfsemi sjóðsins.