Lilja Mósesdóttir, fyrrum þingmaður og hagfræðingur, segir að 45 prósent útgönguskattur muni ekki duga til að koma í veg fyrir hrun krónunnar við losun hafta. Gjaldeyriseign þjóðarinnar dugi ekki fyrir því. Þetta kemur fram í grein sem Lilja birti á heimasíðunni Social Europe í gær.
Þar segir: "Tillögur sem heyrst hafa frá sérfræðingum ríkisstjórnarinnar um afnám hafta fela í sér útgönguskatt á bilinu 20-45 prósent og tilboð um ríkisskuldabréf til 30 ára á afslætti. Með því að hvetja kröfuhafa gömlu bankanna til að festa eignir sínar í 30 ára ríkisskuldabréfum er í raun verið að leggja til að skuldum einkafyrirtækja verði breytt í ríkisskuldir. Stjórnvöld munu sennilega "réttlæta" þennan gjörning með því að verið sé að endurfjármagna ríkisskuldir á afar lágum vöxtum (lægri en verðbólga).[...]Útgönguskatturinn þarf að vera mun hærri en 45 prósent til að lausn peningahengjunnar verði í samræmi við reglur ESB frá 2013 um að eigendur banka og kröfuhafar eigi að taka á sig kostnaðinn vegna gjaldþrots þeirra. Eigendur gömlu bankanna töpuðu andvirði hlutabréfa sinna við fall þeirra og margir kröfuhafar tóku á sig 70-96 prósent lækkun á nafnvirði krafna sinna þegar þeir seldu kröfurnar hrægammasjóðum og áhættufjárfestum. Nú hóta þessir sömu hrægammasjóðir og áhættufjárfestar ríkinu lögsókn fái þeir ekki kröfur sínar nánast að fullu endurgreiddar".
Skortur á hugrekki
Lilja segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, "vinstri stjórnin" sem stjórnaði landinu á síðasta kjörtímabili og hægristjórnin sem nú situr hafi fram til þessa ekki haft haft hugrekki til að leysa peningahengjuvandann í samræmi við regluverk Evrópusambandsins frá 2013. Á meðan stækkar hengjan og ef hún fer af stað verður Ísland sýningardæmi um hvernig hrægömmum og öðrum kröfuhöfum tókst að koma stórum hluta af byrðum sínum yfir á launafólk, skattgreiðendur og skuldsett fyrirtæki og heimili. Hrynji peningahengjan yfir okkur kemst Ísland aftur í heimspressuna - ekki vegna eldgoss heldur mótmæla og uppþota almennings."
Baráttunni við kröfuhafa sé því enn ekki lokið "þrátt fyrir að Ísland hafi unnið Icesave-málið, "útskrifast með láði frá AGS" og sent nokkra "bankaræningja" í fangelsi. Fyrsta hluta baráttunnar lauk í janúar 2013 þegar EFTA-dómstóllinn hafnaði því að íslenskir skattgreiðendur hefðu brotið gegn tilskipun um innistæðutryggingar með því að taka ekki á sig ábyrgð á greiðslu lágmarkstryggingar til innistæðueigenda í Bretlandi og Hollandi."