Það hefur vart farið framhjá neinum að einar sögulegustu þingkosningar í sögu Bretlands fóru fram á fimmtudag. Niðurstaðan var sú, þvert á allar skoðanakannanir, að Íhaldsflokkurinn vann stórsigur og náði hreinum meirihluta.
Þegar lokið var að telja upp úr kjörkössunum kom líka í ljós að Frjálsyndir demókratar og Verkamannaflokkurinn höfðu beðið afhroð og nokkrum klukkutímum eftir að það lá fyrir höfðu Ed Milliband og Nick Clegg, formenn flokkanna, sagt af sér embætti. Það gerðu þeir til að axla ábyrgð. Báðir tóku það alfarið á sig að svo fór sem fór. Nigel Farage, hinn umdeildi leiðtogi UKIP, stóð líka við loforð sitt um að segja af sér formennsku í flokknum ef hann næði ekki kjöri, þrátt fyrir að UKIP hafi fengið 3,8 milljónir atkvæða og bætt verulega við sig í fylgi. Fyrir viðlíka afsögnum er löng hefð. Slík hefð er líka til staðar þegar ráðherrar verða uppvísir að því að gera eitthvað misjafnt.
Á síðasta kjörtímabili sögðu til að mynda tveir ráðherrar af sér vegna þess að upp komst um óhoflega notkun þeirra á kostnaðargreiðslum til þingmanna. Annar þeirra, David Laws, hafði einungis setið í embætti í 18 daga. David Fox, sem var varnarmálaráðherra Bretlands, sagði líka af sér vegna ásakana um að hann hefði mögulega beitt sér fyrir viðskiptahagsmunum vinar síns og fyrrum viðskiptafélaga.
Það er hressandi fyrir þá sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum að sjá stjórnmálamenn axla pólitíska ábyrgð með þessum hætti, enda hanga íslenskir stjórnmálamenn, sem verða uppvísir að valdníðslu, óeðlilegri fyrirgreiðslu eða bara stórkostlegu fylgistapi, vanalega á stöðum sínum eins og hundar á roði. Afsagnir þeirra verða aldrei að veruleika fyrr en eftir margar mánaða, stundum ára, þrýsting og umfjöllun
.
Í breska fyrirkomulaginu eiga flestir þeirra stjórnmálamanna sem segja af sér afturkvæmt í stjórnmál einmitt vegna þess að þeir öxluðu ábyrgð. Tímabundið pólitískt áfall eyðileggur því ekki möguleika þeirra á frekari stjórnmálaþátttöku og jafnvel nýjum ráðherraembættum þegar fram líða stundir.
Kannski mættu íslenskir stjórnmálamenn læra töluvert mikið af breskum kollegum sínum.