Um helmingur af þeim 87 íslensku leiknu kvikmyndum í fullri lengd sem frumsýndar voru á árunum 1996-2013 og teknar voru til almennra sýninga í kvikmyndahúsum fékk innan við 10.000 sýningargesti. Gestafjöldi að meðaltali á hverja frumsýnda mynd á árunum 1996-2013 var 17.373. Hins vegar var aðsókn að helmingi myndanna innan við 10.773 gestir. Sjö myndir fengu yfir 50.000 gesti, tvær myndir yfir 80.000 áhorfendur, en sú mynd sem minnsta aðsókn hlaut fékk innan við 50 áhorfendur.
Hagstofan greinir frá þessu í dag en hún hefur tekið saman yfirlit yfir fjölda kvikmyndagesta á sýningum íslenskra kvikmynda frá 1996 til 2013. Af 1.511.483 gestum sem sáu þær 87 íslensku kvikmyndir sem frumsýndar voru á árunum 1996-2013 féll helmingur aðsóknarinnar í hlut 16 mynda.
Englar alheimsins vinsælust - Topp tíu listinn
Af tíu vinsælustu innlendu kvikmyndum sem frumsýndar voru á árunum 1996-2013 voru fjórar myndanna í leikstjórn Baltasar Kormáks og tvær í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar. Englar alheimsins, í leikstjórn þess síðar nefnda, var með mesta aðsókn, eða ríflega 83.000 gesti. Í öðru sæti var Mýrin, í leikstjórn Baltasar Kormáks, með hátt í 82.000 áhorfendur. Aðeins ein barna- og fjölskyldumynd er á meðal tíu aðsóknarhæstu myndanna. Hagstofan vekur sérstaka athygli á að níu myndanna eru byggðar á vinsælli skáldsögu, leikverki eða sjónvarpsfígúru. Sú tíunda er byggð á sögulegum atburði sem stendur enn nærri hugum manna. Til samanburðar má geta þess að engin þeirra tíu mynda sem minnsta aðsókn hlutu er byggð á bókmenntaverki eða hefur beina skírskotun í alkunnan atburð.
Aðsóknarhæsta kvikmynd í leikstjórn konu er Stella í framboði í leikstjórn Guðnýjar Halldórsdóttur, sem er tólfta aðsóknarhæsta myndin, með hátt í 35.000 gesti.
Myndirnar eru:
Heiti | Leikstjóri | Frumsýningarár | Aðsókn |
Englar alheimsins | Friðrik Þór Friðriksson | 2000 | 83.317 |
Mýri | Baltasar Kormákur | 2006 | 81.580 |
Bjarnfreðarson | Ragnar Bragason | 2009 | 66.876 |
Svartur á leik | Óskar Þór Axelsson | 2012 | 62.783 |
Djöflaeyjan | Friðrik Þór Friðriksson | 1996 | 61.971 |
Hafið | Baltasar Kormákur | 2002 | 58.076 |
Brúðguminn | Baltasar Kormákur | 2008 | 55.300 |
Djúpið | Baltasar Kormákur | 2012 | 50.266 |
Astrópía | Gunnar B. Guðmundsson | 2007 | 46.313 |
Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið | Bragi Þór Hinriksson | 2010 | 37.506 |
Athugasemd: Kjarnanum barst ábending um að á listann og í útreikninga vantar aðsókn á kvikmyndina Bjarnfreðarson frá árinu 2009. Myndin naut mikilla vinsælda og sáu um 70 þúsund manns myndina í kvikmyndahúsum. Það kemur myndinni í 3. sæti yfir aðsóknarmestu myndirnar. Tölur Hagstofunnar hafa ekki verið uppfærðar með tilliti til þessa og verður þessi frétt uppfærð með uppfærðum tölum Hagstofunnar þegar þær berast.
Athugasemd klukkan 11:10: Fréttin hefur verið uppfærð í takt við uppfærða frétt Hagstofunnar. Bjarnfreðarson er 3. vinsælasta myndin á tímabilinu.