Embætti sérstaks saksóknara lagði hald á samtals 47 milljónir evra, um 7,2 milljarða króna, í tengslum við rannsókn á milljarða króna fjárdrætti tengdum Kaupþingi. Þetta kemur fram í ákæru á hendur Hreiðari Más Sigurðssyni, Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, Magnúsi Guðmundssyni og Skúla Þorvaldssyni sem Kjarninn birti í heild sinni í morgun. Þar eru hin þrjú fyrstnefndu meðal annars ákærð fyrir fjárdrátt. Málið snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kauþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki. Hin ákærðu eiga yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi verði þau fundin sek. Þetta er í fjórða sinn sem embætti sérstaks saksóknara ákærir þá Hreiðar Má og Magnús. Enn eru nokkur mál í rannsókn sem tengjast Kaupþingi. Heimildir Kjarnans herma að meðal þess sem enn er verið að rannsaka séu fleiri möguleg fjárdráttarmál.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/1[/embed]
Hið upptæka eign ríkissjóðs nema aðrir vitji
Í ákærunni kemur fram að fundist hafi umtalsverðir fjármunir í ýmsum erlendum fjármálastofnunum sem skráðir voru í eigu Skúla Þorvaldssonar eða félaga hans. Ýmist var um að ræða eignasöfn eða innstæður. Eignirnar voru frystar að beiðni embættis sérstaks saksóknara þann 3. júní 2011. Þegar eignirnar voru síðast virtar var virði þeirra 46,7 milljónir evra, eða rúmlega 7,2 milljarðar króna.
Í ákærunni er gerð krafa um að Skúla og félögum hans verði gert að sæta upptöku á þessum eignum með vísan til 69. greinar almennra hegningarlaga. Samkvæmt þeirri grein skal hið upptæka vera eign ríkissjóðs. Þar segir hins vegar einnig: „Hafi einhver beðið tjón við brotið, skal hann þó eiga forgang til andvirðisins, ef bætur fást ekki á annan hátt“. Þrotabú Kaupþings er klárlega sá aðili sem hefur beðið tjón vegna brotsins. Þrotabúið hefur hins vegar enn ekki gert tilkall til fjármunanna. Það getur gert slíkt hvenær sem er, meira að segja eftir að dómur er fallinn í málinu, en þangað til verða fjármunirnir í eigu ríkissjóðs ef fallist verður á upptökukröfu sérstaks saksóknara.
Kaupþing gerir raunar kröfu á sakborninganna sjálfa í málinu. Búið fer fram á að Hreiðar Már, Magnús, Guðný og Skúli verði dæmd til að greiða því samtals um 6,1 milljarð króna, um 15,7 milljónir evra og tæplega 3,6 milljónir dala.
Milljarðar millifærðir á Skúla
Þótt Marple hafi verið í eigu Skúla þá var félagið með skráð aðsetur hjá Kaupþingi í Lúxemborg, starfsmenn þess banka sátu í stjórnum þeirra félaga sem sátu í stjórn þess og Magnús Guðmundsson, forstjóri bankans, „hafði umsjón með Marple og annaðist fjárfestingar og fjársýslu fyrir hönd félagsins,“ samkvæmt ákærunni. Þeim Hreiðari Má, Magnúsi og Guðnýju Örnu er gefið að hafa fært fjármuni, um átta milljarða króna, úr sjóðum Kaupþings til Marple án þess að lögmætar viðskiptalegar ástæður lægju þar að baki. Þetta bætti fjárhagsstöðu Marple um sömu upphæð.
Í fyrsta kafla ákærunnar eru Hreiðar Már og Guðný Arna ákærð fyrir fjárdrátt en þeir Magnús fyrir hlutdeild í slíkum. Skúli er ákærður aðallega fyrir hylmingu en til vara fyrir peningaþvætti. Málið snýst um millifærslu á rúmlega þremur milljörðum króna af reikningi Kaupþings þann 17. desember 2007 inn á reikning Kaupþing í Lúxemborg sem var síðan færð þann 28. desember inn á reikning Marple Holding S.A. SPF, sem er í eigu Skúla Þorvaldssonar.
Í öðrum kafla hennar eru sömu sakir settar fram gagnvart sama fólkinu. Nú snýst málið um tæplega 3,1 milljarða króna millifærslur sem fór sömu leið um mánaðarmótin júní/júli 2008.
Í ákærunni segir: „Ákærðu klæddu einhliða fjármunafærslur í búning tvíhliða viðskipta milli Kaupþings hf. og Marple og sköl voru útbúin eftir á sem ætlað var að sýna fram á að viðskipti hefðu átt sér stað[...]Þau gögn sem ákærðu útbjuggu vegna hinna tilbúnu viðskipta höfðu þann eina tilgang að leyna hinu rétta eðli fjármunafærslnannaog fela þannig auðgunarbrotin. Þrátt fyrir ítarlega leit hafa samningar, sem réttlætt gætu færslurnar, ekki fundist hjá Kaupþingi“.
Gefið að hafa keypt skuldabréf lang yfir markaðsvirði
Í þriðja kafla ákærunnar er þeim Hreiðari Má og Guðnýju Örnu gefið af hafa framið umboðssvik og Magnúsi gefið að hafa átt hlutdeild í slíkum vegna viðskipta sem áttu sér stað 20. maí 2008. Skúli er ákærður fyrir hylmingu og til vara fyrir peningaþvætti. Í þessum hluta eiga Hreiðar Már og Guðný Arna að hafa átt að misnota aðstöðu sína með því að láta Kapuþing kaupa skuldabréf útgefin af bankanum sjálfum af Marple á nafnverði bréfanna að viðbættum áföllnum vöxtum fyrir um 57,5 milljónir evra og 45,4 milljónir dala. Samkvæmt ákæru var þetta kaupverð „langt yfir markaðsverði skuldabréfanna og ollu Kaupþingi hf. með því fjártjóni“.
Í ákærunni segir að Magnús hafi, að undirlagi Hreiðars Más, látið Kaupþing í Lúxemborg kaupa þessi sömu skuldabréf með miklum afföllum í apríl og maí 2008 en selja þau síðan til Marple á sama verði og þau voru keypt. Þegar Kaupþing á Íslandi keypti svo skuldabréfin aftur nokkrum dögum síðar sat mismunurinn, hagnaðurinn, eftir í Marple, félagi í eigu Skúla sem Magnús stýrði. Alls nam þessi hagnaður tæpum 2,1 milljarði króna miðað við gengið í maí 2008.
Málið verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur í haust. Ákæruna má lesa í heild sinni hér.