Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bíður eftir niðurstöðum tæknirannsóknar erlendis frá í fjárkúgunarmáli systranna Hlínar Einarsdóttur og Malínar Brand, en þær reyndu að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.
RÚV hefur þetta eftir Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni. Hann segir að tæknirannsóknin snúi að DNA-sýnum af sönnunargögnum málsins, þar á meðal fjárkúgunarbréfinu sjálfu og umslaginu sem það var í. Þegar niðurstöður þessarar rannsóknar koma að utan verður farið yfir þær og rannsókn málsins lokið.
Systurnar voru handteknar í lok maí vegna málsins, en greint var frá því fyrst á Vísi þann 2. júní síðastliðinn. Hlín hefur játað að hafa ætlað að kúga fé út úr Sigmundi Davíð en Malín sagðist í yfirlýsingum ekki hafa skipulagt fjárkúgunina heldur aðeins aðstoðað systur sína við að ná í peningana sem áttu að fást út úr kúguninni. Þessu hefur Hlín mótmælt.
Átti að koma forsætisráðherra illa
Upplýsingarnar í fjárkúgunarbréfinu áttu að koma Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra illa, og hótað var að gera þær opinberar í bréfinu sem stílað var á eiginkonu hans. Þessar upplýsingar snérust um að Sigmundur Davíð eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá MP banka. Björn Ingi, aðaleigandi Pressunnar, er með sterk tengsl við Framsóknarflokkinn. Hann starfaði á árum áður sem aðstoðarmaður þáverandi forsætisráðherra flokksins, Halldórs Ásgrímssonar, og sat fyrir hönd hans í borgarstjórn Reykjavíkur um skeið. Björn Ingi tilkynnti hins vegar að hann væri hættur afskiptum af stjórnmálum í byrjun árs 2008 og hefur síðan þá starfað við fjölmiðla.
Fyrst um sinn voru sagðar fréttir af því að kúgunin hafi snúist um upplýsingar um að Sigmundur Davíð hefði tengst fjármögnun á kaupum Björns Inga á DV.
Björn Ingi hefur ekki tjáð sig um málið frá því það kom upp fyrir utan stöðuuppfærslu sem hann setti inn á Facebook þriðjudaginn 2. júní. Þar sagði hann: „Ég er harmi sleginn yfir fregnum dagsins. Hugur minn er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa máls. Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu. Að öðru leyti óska ég eftir því að tekið sé tillit til þess að hér er mannlegur harmleikur á ferðinni og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.“
Sigmundur Davíð sendi frá sér yfirlýsingu sama dag þar sem sagði m.a.: „ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, né hef ég komið að kaupum Vefpressunnar á DV á nokkurn hátt.“ Síðar setti forsætisráðherra svo inn stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann ítrekaði að hann hefði „ekki nokkra einustu aðkomu að eigendaskiptum á DV og veit ekkert um aðdraganda og gang þeirra mála.“