Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og embætti sýslumanns hafa rekstur skemmti- og veitingastaðarins Austurs, við Austurstræti 7 í Reykjavík, til rannsóknar. Samkvæmt heimildum Kjarnans lýtur rannsókn lögreglu meðal annars að því hvort ætluð saknæm háttsemi hafi átt sér stað í tengslum við rekstur einkahlutafélagsins 101 Austurstrætis, sem er skráður leyfishafi fyrir rekstrinum, og þá skoðar embætti sýslumanns hvort núverandi rekstrarfyrirkomulag brjóti gegn núgildandi rekstrarleyfi.
Harðvítugar deilur innan eigendahópsins
Forsögu málsins má rekja til deilna í hluthafahópi 101 Austurstrætis ehf. Haustið 2013 keypti fyrirtækið Alfacom General Trading ehf., í eigu Kamran Keivanlou og Gholamhossein M. Shirazi, helmingshlut í 101 Austurstræti, sem á og rekur skemmtistaðinn Austur. Seljendur voru fjölmiðlamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson, þáverandi framkvæmdastjóri, og félag í eigu Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi forstjóra MP banka. Alfacom General keypti 25 prósenta hlut af sitt hvorum aðilanum.
Fljótlega eftir kaupin slettist upp á viðskiptasambandið og hefur ásökunum um fjármálamisferli verið haldið á lofti. Deilurnar í félaginu leiddu til þess að Íslandsbanki sagði upp bankaviðskiptum við félagið í lok nóvember eftir að lögmaður Alfacom hótaði lögbannskröfu og Borgun sagði upp þjónustusamningi við 101 Austurstræti nokkrum dögum síðar. Með þessu varð félagið óstarfhæft, en auk þessa hefur Íslandsbanki kært umboðslausa úttekt eins stjórnarmanns af reikningi félagsins. Ásgeir og Styrmir Þór kröfðust þess að Íslandsbanki opnaði reikninga félagsins á ný að viðlagðri hótun um skaðabótamál, en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Nýtt einkahlutafélag stofnað um reksturinn
Eins og áður segir er 101 Austurstræti ehf. leyfishafi vegna reksturs skemmtistaðarins Austurs, og Ásgeir Kolbeinsson er titlaður ábyrgðarmaður leyfisbréfsins. Þá er í gildi leigusamningur milli einkahlutafélagsins og Eikar fasteignafélags um leigu á fasteigninni að Austurstræti 7 til ársins 2029. Heimildir Kjarnans herma að sátt hafi náðst um það í eigendahópnum að leggja niður rekstur Austurs tímabundið, þar til unnið hefði verið úr ágreiningnum.
Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra stofnaði Ásgeir Kolbeinsson einkahlutafélagið Austurstræti 5 í lok janúar, ásamt Vilhelm Patrick Bernhöft, sem er titlaður sem framkvæmdastjóri félagsins. Það félag hefur nú tekið við rekstri Austurs, og samkvæmt kvittunum sem Kjarninn hefur undir höndum renna rekstrartekjur af staðnum nú til áðurnefnds félags.
Lögregluyfirvöldum ítrekað gert viðvart
Forsvarsmenn Alfacom hafa ítrekað bent lögregluyfirvöldum á höfuðborgarsvæðinu og embætti sýslumannsins í Reykjavík á að nú fari með rekstur Austurs í fullkomnu heimildaleysi 101 Austurstrætis, félag sem hvorki hafi tilskylin leyfi til rekstursins, meðal annars vínveitingaleyfi, né gildandi leigusamning.
Í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald segir í 7. grein: „Hver sá sem hyggst stunda starfsemi sem fellur undir lög þessi skal hafa til þess rekstrarleyfi útgefið af leyfisveitanda. Í rekstrarleyfi getur falist leyfi til sölu gistingar og/eða veitingar og sölu veitinga, hvort sem er í mat eða drykk, bæði áfengra og óáfengra, og/eða útleigu samkomusala í atvinnuskyni.“
Talsmaður hjá embætti sýslumanns staðfesti við Kjarnann að embættinu hafi borist áðurnefndar ábendingar, og að engin breyting hafi orðið á leyfishafa vegna reksturs Austurs. Félagið 101 Austurstræti sé enn skráður leyfishafi fyrir rekstrinum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans sannreynir nú lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvort rekstrartekjur Austurs renna til einkahlutafélagsins Austurstræti 5, og hvort sú ráðstöfun varði við lög. Þá staðfestir lögreglan að kæra hafi borist í málinu. Þar er um að ræða kæru forsvarsmanna Alfacom á hendur Ásgeiri Kolbeinssyni og Styrmi Þór Bragasyni vegna núverandi rekstrarfyrirkomulags. Þá skoðar sýslumaðurinn í Reykjavík hvort núverandi rekstrarfyrirkomulag brjóti í bága við núgildandi rekstrarleyfi, að því er heimildir Kjarnans herma.