Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur á síðustu sex mánuðum greitt almannatengslafyrirtækinu KOM 828.750 krónur vegna sérfræðiþjónustu í tengslum við samantekt Geir Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, og Lekamálið. Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans.
Þá hefur embættið ekki keypt lögfræðiráðgjöf vegna fyrrnefndra mála, hvorki árið 2014 né það sem af er árinu 2015, að því er fram kemur í svari lögreglunnar við fyrirspurn Kjarnans.
Eins og kunnugt er gerði Persónuvernd alvarlegar athugasemdir við afhendingu lögreglu á skýrslu Geir Jóns um mótmælin í tengslum við búsáhaldabyltinguna svokölluðu, sem og miðlun Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, á persónuupplýsingum um hælisleitandann Tony Omos til Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Í báðum tilfellum hafi lög verið brotin.
Fyrirspurn Kjarnans, um kostnað Lögreglu höfuðborgarsvæðisins vegna aðkeyptrar lögfræði- og/eða almannatengslaráðgjafar á árinu 2014 og það sem af er ári 2015, var send fyrir tæpum tveimur vikum.