„Lögreglustjórarnir í hverju umdæmdi fyrir sig ráða því hvar skotvopnin eru geymd. Það er ekkert nýtt að lögreglan eigi skotvopn, en á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að lögreglan sé með skotvopn til taks í bifreiðum,“ segir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra.
DV greinir frá því í dag að samkvæmt heimildum blaðsins þá muni MP 5 hríðskotabyssur og Glock 17 hálfsjálfvirk skammbyssa verða til taks í öllum lögreglubifreiðum framvegis.
Jón segir að það sé orðum aukið, að vopnin verði til taks í öllum bifreiðum, heldur hafi lögreglustjórar það í hendi sinni hvort vopnin verði í bifreiðum eða geymd á lögreglustöðvum.
Í DV kemur enn fremur fram að um 200 lögreglumenn hafi sótt námskeið á dögunum til þess að þjálfa meðferð skotvopna við störf. Jón segir að það sé ekkert launungarmál að lögreglan vilji auka færni lögreglumanna þegar kemur að meðferð skotvopna. Því miður sé það nauðsynlegt, að hans sögn, og í takt við kröfur sem gerðar eru til lögreglumanna. „Þessi viðbótarfjárveiting sem fékkst til þess að endurnýja vopnaeign lögreglunnar, hefur ekki farið í að kaupa vopn eða vopnavæða lögregluna frekar, nema þá lítið eitt. Breytingin hefur sem hefur orðið er helst sú, að það er verið að efla færni lögreglunnar þegar kemur að meðferð skotvopna,“ segir Jón Bjartmarz.