Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, fer með ósannindi í opinskáu opnuviðtali við Agnesi Bragadóttur blaðamann Morgunblaðsins, sem birtist í dag, að því er fram kemur í skriflegu svari Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara við fyrirspurn Kjarnans.
Í umræddu viðtali er haft eftir Sigríði Björk: „Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort ég hefði ekki átt að gera lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kunnugt um samskipti mín við Gísla Frey, aðstoðarmann ráðherra, þegar hún vann að rannsókn sinni á lekamálinu. Því er til að svara að samskipti mín við aðstoðarmanninn fóru fram eftir að hann hafði lekið upplýsingum til fjömiðla. Jafnframt að öll samskipti aðstoðarmanna og tölvupóstsendingar voru skoðuð af lögreglunni og allar upplýsingar um mín samskipti lágu þar fyrir.“
Sigríður Björk, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur sjálf sagt í fjölmiðlum að hún hafi sent Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, greinargerð um hælisleitandann Tony Omos, í tölvupósti þann 20. nóvember 2013, eða sama dag og fyrstu fréttirnar birtust í fjölmiðlum í hinu svokallaða lekamáli sem byggðu á minnisblaði sem Gísli Freyr lak til fjölmiðla og fékk síðar dóm fyrir. Persónuvernd úrskurðaði á dögunum að Sigríður Björk hafi brotið lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga með því að senda Gísla Frey umbeðna greinargerð.
Lögregla hafði ekki vitneskju um tölvupóstsendinguna
Kjarninn bar ofangreind ummæli Sigríðar Bjarkar undir Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara. Í skriflegu svari hans til Kjarnans segir: „Umræddur tölvupóstur og greinargerð sem fylgdi honum og var sendur frá Sigríði til Gísla Frey var lögreglu ekki kunnugt um. Að sjálfsögðu var pósthólf Sigríðar ekki rannsakað, en mér er ekki kunnugt um að merki um þessa póstsendingu hafi fundist í pósthólfi Gísla Freys og var hún ekki hluti af málsgögnum. Ákæruvaldið fékk fyrst upplýsingar um að greinargerðin hefði verið send þegar Sigríður greindi frá því í fjölmiðlum eftir að umfjöllun um símasamskipti hennar við Gísla Frey komu til umræðu eftir að dómur gekk.“
Umfjöllunin sem Helgi Magnús vísar til má rekja til yfirlýsingar Sigríðar Bjarkar sem hún sendi fjölmiðlum 18. nóvember síðastliðinn í kjölfar fréttar DV þar sem greint var frá því að hún og Gísli Freyr hefðu þrívegis ræðst við í síma daginn sem fyrstu fréttirnar í lekamálinu litu dagsins ljós.
Þá segir í áðurnefndu svari Helga Magnúsar vararíkissaksóknara við fyrirspurn Kjarnans: „Lögreglu var kunnugt um símtöl milli Sigríðar og Gísla Freys eftir að lekinn átti sér stað. Lágu fyrir upplýsingar í rannsóknar gögnum um símtal þeirra á milli. Í fjölmiðlum eftir að málinu lauk komu síðan fram upplýsingar um símtöl þeirra á milli sem ekki var veitt athygli í rannsókninni, líklega vegna þess að þau fóru um síma sonar Sigríðar, eins og hún hefur greint frá að hafi verið vegna þess að hennar sími var bilaður.“
Heimildamaður Kjarnans innan lögreglu höfuðborgarsvæðisins hefur staðfest lýsingar Helga Magnúsar á málsatvikum.
Ummæli Sigríðar Bjarkar í áðurnefndu opnuviðtali við Morgunblaðið, um að lögreglu hafi verið kunnugt um tölvupóstsamskipti hennar við Gísla Frey Valdórsson, eiga því ekki við rök að styðjast.