Aðgerðir stjórnvalda um losun hafta, í skrefum, eru fordæmalausar í efnahagssögunni að því er fram kemur í kynningu sem Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason, varaformenn framkvæmdahóps um losun hafta, kynntu á blaðamannafundi í Hörpu í hádeginu.
Í ítarlegri kynningu þeirra á þeim skilyrðum, sem kröfuhafar í bú hinna föllnu banka þurfa að undirgangast, til að sleppa við 39 prósent skatt á eignir búanna, kom fram að leiðarstefið í aðgerðum stjórnvalda væri það, að vernda þjóðarhagsmuni og hlífa heimilum og fyrirtækjum, þegar kæmi að því að losa um höftin. Fram kom í kynningu þeirra, að stærstu hluti kröfuhafa slitabúa hinna föllnu banka hefði nú þegar undirritað viljayfirlýsingu um að fallast á skilyrði sem stjórnvöld hafa nú kynnt, og því má gera ráð fyrir, að ekki muni reyna á hinn svonefnda stöðugleikaskatt.