Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hittust í gær á fundi til að leggja lokahönd á nýtt frumvarp um makrílveiðar og frumvarp um breytingar á veiðigjöldum. Líklegt þykir að frumvörpin verði kynnt í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna í dag. Samkvæmt drögum að makrílfrumvarpinu verður makrílkvótinn ekki gefinn til frambúðar í þessu skrefi, heldur úthlutað tímabundið til sex ára. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Í nýlegri fréttaskýringu Kjarnans kom fram að virði makrílkvótans geti verið allt að 150-170 milljarðar króna. Því eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir almenning og þær útgerðir sem veiða makríl. Það er Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem leggur fram frumvörpin.
Viðbótarveiðigjald á makríl á að skila ríkissjóði 1,5 milljarði
Í frétt blaðsins segir að meðal þess sem var í drögum að makrílfrumvarpinu var að viðbótarveiðigjald verði lagt á makríl, tíu krónur á hvert veitt kíló. Það mun skila ríkissjóði 1,5 milljarði króna í viðbótartekjur miðað við 150 þúsund króna makrílkvóta. Veiðigjald á makríl verður þá hærra en á þorski.
Samkvæmt Morgunblaðinu mun vera uggur í makrílútgerðum vegna þessarra hugmynda þar sem þær óttast versnandi afkomu vegna aðstæðna á mörkuðum í Austur-Evrópu.
Skipting makrílkvótans milli hinna ýmsa flokka skipa og veiðarfæra verður í stórum dráttum eins og hún hefur verið frá 2011. Eina breytingin þar verður sú að lagt verður til að fimm prósent makrílkvótans fari til þeirra sem hófu að frysta makríl fyrir árið 2010, en á þeim tíma fór stór hluti aflans í bræðslu.
Úthlutað til sex ára, ekki varanlega
Þá segir Morgunblaðið að rætt hafi verið um að aflahlutdeild í makríl verði úthlutað tímabundið til sex ára, ólíkt því sem gildir með aflahlutdeild í öðrum fisktegundum. Makrílkvótinn verður því ekki gefin til frambúðar, að minnsta kosti ekki í þessu skrefi. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að smábátar fái að veiða fimm prósent af makrílkvótanum.
Frestur til að leggja fram ný þingmál sem eiga að komast á dagskrá á vorþingi rennur út á morgun.
Makríll vermætasta tegundin sem bætt hefur verið inn í kerfið
Veiðar og vinnsla á makríl er ein skýringin á góðri afkomu stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna sem hafa lagt stund á makrílveiðar á síðustu árum. Makríll veiddist fyrst sem meðafli á síldveiðum en svo smám saman jókst magn hans innan lögsögunnar, og hefur makríllinn verið mikil himnasending fyrir íslenska hagkerfið frá hruni fjármálakerfisins og krónunnar.
Frá því kvótakerfið var sett á laggirnar árið 1984 hefur svo verðmæt tegund sem makríllinn augljóslega er ekki bæst við inní kerfið.
Samningar um makrílveiðar hafa ennþá ekki náðst fram á milli þjóðanna í N-Atlantshafi eins og þekkt er. Þrátt fyrir þetta hefur færeyska heimastjórnin boðið út hluta af sínum makrílkvóta til leigu til árs í senn. Grænlenska heimastjórnin hefur umtalsverðar tekjur af sínum makrílkvóta og rukka ákveðna krónutölu á hvert veitt kíló.
Virði kvótans 150-170 milljarðar
Á núverandi fiskveiðiári er þorskígildisstuðullinn fyrir makríl 0,41. Stuðullinn hefur farið hækkandi á síðustu árum enda er makríll verðmæt tegund og stærstur hluti nýttur til manneldis. Þetta hefur skilað sér í afburða góðri afkomu fyrirtækja sem veiða, vinna og selja makríl á alþjóðamarkað.
Til samanburðar er stuðullinn fyrir kolmuna 0,10 og 0,29 fyrir norsk-íslenska síld.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er verð á þorskkvóta um það bil 2.500 kr/kg í nýlegum viðskiptum. Miðað við þessar forsendur er einfalt að finna út að verðmæti makrílkvótans, ef hann verður úthlutaður varanlega án endurgjalds til sjávarútvegsfyrirtækjanna, gæti verið á bilinu 150 til 170 milljarðar.