Mál Bandalags háskólamanna (BHM) gegn ríkinu, um hvort heimilt hafi verið að setja lög á verkfall bandalagsins, verður flutt í Hæstarétti á morgun 10. ágúst klukkan 9:00. Þetta hefur Hæstiréttur staðfest samkvæmt tilkynningu frá BHM.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði þann 15. júlí íslenska ríkið af kröfum BHM og var það niðurstaða héraðsdóms að ríkinu hafi verið heimilt að setja lög á verkfall félaga BHM. Lög þess efnis voru samþykkt í júní, eftir um tíu vikna verkfallsaðgerðir ákveðinna félaga innan BHM og langar kjaraviðræður án niðurstöðu. Niðurstöðunni var áfrýjað til Hæstaréttar. Þar verður málið flutt í fyrramálið.
Dómur héraðsdóms í málinu var birtur um miðjan júlí. „Var það niðurstaða dómsins að ekki væru komin fram nægjanlega veigamikil rök til að líta svo á að löggjafinn hafi með lagasetningunni gengið lengra í þá átt að skerða frelsi deiluaðila til að ná kjarasamningum en nauðsynlegt var til að ná fram yfirlýstum markmiðum sínum til að tryggja almannaheill,“ segir í niðurstöðukafla dóms héraðsdóms.
BHM telur að þau lög sem stjórnvöld settu á verkfallsaðgerðir stéttarfélaga BHM hafi verið ólögmæt. Í stefnu BHM gegn íslenska ríkinu segir að engin rök hafi verið færð fram sem sýni fram á neyðarstöðu vegna verkfallsaðgerða og að svo virðist sem geðþóttaákvörðun hafi ráðið því að lög hafi verið sett sem banna verkföll stéttarfélaga BHM.
Kjaradeilu aðildarfélaga BHM var vísað til ríkissáttasemjara í lok mars síðastliðnum. Haldnir voru 24 fundir sem báru ekki árangur. Þann 13. júní síðastliðinn voru samþykkt lög á Alþingi sem bönnuðu verkföll Félags geislafræðinga, Félags lífeindafræðinga, Ljósmæðrafélagss Íslands, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélags lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Stéttarfélags háskólamanna á matvæla- og næringasviði, Dýralækningafélags Íslands hjá Matvælastofnun og Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins.
Þegar lög voru sett höfðu verkfallsaðgerðir staðið yfir í á þriðja mánuð. „Að mati stefnanda felur setning laga 31/2015 í sér ólögmætt inngrip í starfsemi frjálsra, löglegra félagssamtaka og leitar því fulltingis dómstóla til að fá hlut félaga sinn réttan,“ segir í stefnu BHM.